Travel behaviour and planning of the Reykjavik capital region

Vakin er athygli á málþingi um samgöngur og skipulag á Höfuðborgarsvæðinu sem haldið verður í Norræna húsinu þann 3. Júní 2019 frá kl. 13-17:30.

Aðstandendur málþingsins er hópur á vegum skipulagsdeildar norsks háskóla (Department of urban and regional planning (BYREG), Norwegian University of Life Sciences (NMBU) ásamt samstarfsaðilum þeirra við Háskóla Íslands.

Á málþinginu verða kynntar niðurstöður úr Resactra-is rannsóknarverkefninu sem fjallar um ferðavenjur og byggt umhverfi Höfuðborgarsvæðisins. Einnig verða kynntar niðurstöður úr verkefninu SuReCa (Leit að sjálfbærri höfuðborg Reykjavíkur: lífsstíll, viðhorf, ferðavenjur, vellíðan og áhrif ungra fullorðinna á loftslagsbreytingar). Byggt á núverandi markmiðum um skipulag höfuðborgarsvæðisins, mun málþingið fjalla um markmið, áskoranir og tækifæri sem geta leitt til sjálfbærs skipulags og samgangna.

Allar upplýsingar um málþingið, skráningu og dagskrá má finna hér.

Sama dag mun Dr. Petter Næss Prófessor við NMBU flytja fyrirlestur í Háskóla Íslands kl. 10.30-12, sjá nánar hér https://www.hi.is/vidburdir/gestafyrirlestur_petter_naess

Aðgangur að málþinginu er ókeypis en sætaframboð er takmarkað og er fólk vinsamlegast beðið um að skrá þátttöku hér. 

Félagar í Skipulagsfræðingafélagi Íslands og aðrir áhugasamir eru hvattir til að mæta. 

Skipulagsverðlaunin 2018

Þann 21. mars var aðalfundur Skipulagsfræðingafélags Íslands haldinn og við það tækifæri voru Skipulagsverðlaunin 2018 veitt. Þema verðlaunanna að þessu sinni var skipulag fyrir fólk, og var einkum horft til faglegrar skipulagsgerðar þar sem velferð fólks var höfð í öndvegi. Auglýst var eftir tilnefningum í tveimur flokkum. Annars vegar skipulag, þ.e. skipulagstillaga eða staðfest skipulag á öllum skipulagsstigum og hins vegar sérstök verkefni í tengslum við skipulag, svo sem frumkvöðlastarf, miðlun upplýsinga um skipulagsmál eða lokaverkefni til háskólaprófs á sviði skipulagsmála. Að þessu sinni voru 8 skipulagsverkefni tilnefnd til verðlaunanna og fjögur sérstök verkefni í tengslum við skipulag. Það er sýnilega margt spennandi að gerast í skipulagsmálum á Íslandi í dag og ástæða til að horfa björtum augum til framtíðar.

Verðlaun í flokki skipulags, þ.e. fyrir samþykkt skipulag eða tillögu að skipulagi á öllum skipulagsstigum, hlaut Rammaskipulag Skerjafjarðar, unnið af ASK arkitektum, EFLU og Landslagi fyrir Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar.

Í áliti dómnefndar segir m.a.:

Rammaskipulag Skerjafjarðar markar að nokkru leyti tímamót í gerð rammaskipulags hér á landi og eru skipulagshöfundar framsæknir í viðleitni sinni til að leggja áherslu á góða umgjörð fyrir fjölbreytilega flóru íbúa og lifandi samfélag. Rammaskipulagið er langtíma stefnumarkandi skipulagsáætlun um uppbyggingu fjölbreytilegrar og vistvænnar borgarbyggðar á þessum mikilvæga lykilstað á höfuðborgarsvæðinu. Höfundar Rammaskipulagsins nýta sér staðsetningu og sérstöðu svæðisins til hagsbóta fyrir íbúa þess í nútíð og framtíð og íbúar alls höfuðborgarsvæðisins munu fá tækifæri til að njóta þeirra gæða sem svæðið býður upp á.

Þráinn Hauksson hjá Landslagi, Bryndís Friðriksdóttir hjá EFLU, Páll Gunnlaugsson, Gunnar Örn Sigurðsson og Þorsteinn Helgason hjá ASK arkitektum veittu verðlaununum viðtöku.

Verðlaun í flokknum sérstök verkefni í tengslum við skipulag hlaut Dr. Sigríður Kristjánsdóttir fyrir ritstjórn bókarinnar Nordic Experiences of Sustainable Planning: Policy and Practice, sem út kom hjá bókaforlaginu Routledge árið 2018.

Í áliti dómnefndar segir m.a.:

Í bókinni má finna yfirgripsmikið samansafn ritrýndra fræðigreina eftir12 fræðimenn sem fjalla um sjálfbærni og skipulagsmál á Norðurlöndunum frá ólíkum sjónarhornum. Í bókinni eru 18 kaflar frá öllum Norðurlöndunum sem fjalla um skipulagsmál frá ólíkum sjónarhornum og draga fram hve þverfagleg skipulagsfræði er. Bókin er mikilvæg heimild um skipulagsmál á Norðurlöndunum og vaxandi áherslu á sjálfbærni í skipulagi. Í bókinni er leitað svara við áleitnum spurningum og getur hún nýst fagfólki, fræðimönnum og námsmönnum á sviði skipulagsfræði, umhverfismála, arkitektúrs og borgarhönnunar.

Dr. Sigríður Kristjánsdóttir, dósent og námsbrautarstjóri við Landbúnaðarháskóla Íslands veitti verðlaununum viðtöku.

 

Dómnefnd Skipulagsverðlaunanna 2018 skipuðu eftirfarandi fulltrúar:

Edda Ívarsdóttir fyrir Grænni byggð,
Guðbjörg Guðmundsdóttir fyrir Félag íslenskra landslagsarkitekta,
Jóhann Einarsson fyrir Arkitektafélag Íslands
Kristín Una Sigurðardóttir fyrir Skipulagsfræðingafélag Íslands, formaður dómnefndar
Þorsteinn Þorsteinsson fyrir Verkfræðingafélag Íslands.

Stjórn Skipulagsfræðingafélags Íslands óskar verðlaunahöfum til hamingju með vel unnin og vönduð verk. Þá vill stjórnin þakka þeim sem tilnefndu verkefni, dómnefndarfulltrúum fyrir þeirra störf og fagfélögunum sem tilnefndu fulltrúa fyrir samstarfið. Verðlaunin eru veitt með styrk frá Skipulagsstofnun og þakkar stjórnin fyrir það framlag.

Dómnefndarálit í heild má finna hér: 

Umsögn dómnefndar- Skipulagsverðlaunin 2018_

Aðalfundur SFFÍ 2017

 

Stjórn Skipulagsfræðingafélags Íslands boðar til aðalfundar félagsins fimmtudaginn 30. mars 2017 kl. 17 í húsi verkfræðinga að Engjateig 9 í Reykjavík.
Dagskrá fundarins:
  • Ársskýrsla stjórnar,
  • Uppgjör reikninga
  • Tillögur að lagabreytingum
  • Kosningar í stjórnir og nefndir
  • Kosning skoðunnarmanna reikninga
  • Upphæð árgjalda ákveðin
  • Önnur mál
    •  Stefna félagsins 2017-2018
Hægt er að senda tillögur að lagabreytingum til stjórnar  sem verða þá birtar félagsmönnum fyrir aðalfund líkt og lög félagsins gera ráð fyrir.
Lagabreytingar þurfa að berast 5 dögum fyrir aðalfund.
Sjá nánar í lögum félagsins: http://skipulagsfraedi.is/about/log/
Enn vantar frambjóðendur í stjórn félagsins og eru félagsmenn eru hvattir til að bjóða sig fram og taka þannig virkan þátt í starfi félagsins.