Sameiginleg yfirlýsing varðandi nýlegar hugmyndir í arkitektúr og skipulagsmálum

Eftirfarnadi yfirlýsing frá stjórnum Arkitektafélags Íslands, Félags íslenskra landslagsarkitekta og Skipulagsfræðingafélagi Íslands hefur verið send á fjölmiðla:

Yfirlýsing varðandi nýlegar hugmyndir í arkitektúr og skipulagsmálum

Undanfarnar vikur hefur nokkur umræða átt sér stað um arkitektúr og skipulagsmál, einkum í kjölfar hugmynda forsætisráðherra, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, um málefni þessu tengdu. Stjórnir þriggja fagfélaga sem starfa á þessu sviði vilja í þessu samhengi bregðast við nokkrum af þeim atriðum sem borið hefur á góma:

Hugmyndir um viðbyggingu við Alþingishúsið eftir 100 ára gamalli teikningu Guðjóns Samúelssonar

Það er afar óeðlilegt að ætla að ákveða útlit byggingar með jafn afgerandi hætti og lagt er til í þingsályktunartillögu um aldarafmæli fullveldis Íslands sem birt var þann 1. apríl síðastliðinn. Þó að mikilvægt sé að huga að sögulegu gildi umhverfis þá er það veik framtíðarsýn að taka útgangspunkt í fortíðinni. Mikilvægt er að uppbygging og hönnun endurspegli raunveruleika þess samfélags sem er til staðar hverju sinni. Því er mun nær að leggja alúð við að greina samhengi viðkomandi verkefnis svo hægt verði að fletta saman nýju og gömlu á auðmjúkan en skapandi hátt.

Endurbygging Valhallar á Þingvöllum

Uppbyggingu í Þjóðgarðinum á Þingvöllum þarf að skoða í víðara samhengi, en með hvaða hætti Valhöll verður endurbyggð, líkt og lagt er til í áður nefndri þingsályktunartillögu. Liggja þarf fyrir skýr framtíðarsýn um þjóðgarðinn í heild sinni í tengslum við náttúru, sögulegt umhverfi og heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna, áður en teknar eru ákvarðanir um einstakar aðgerðir. Endurskoðun á stefnumótun fyrir Þingvelli, þar sem mótuð er framtíðarsýn fyrir þjóðgarðinn, er því lykilatriði. Þannig er unnt að taka ákvarðanir sem byggðar eru á skynsömum og faglegum grunni, á þessum stað sem er okkur öllum svo kær.

Hugmynd um nýja staðsetningu Landspítalans

Þó að ákvörðun um staðsetningu Landspítala sé umdeild þá er hún byggð á faglegri skipulagsgerð og hefur farið í gegnum lögbundna ferla. Það er því afar gagnrýnisvert að setja jafn mikilvægt verkefni í uppnám með illa ígrunduðum pælingum um aðra staðsetningu. Því er vert að hafa í huga að orðum fylgja ábyrgð.

Framtíð Reykjavíkurflugvallar

Skiptar skoðanir eru um hvort Reykjavíkurflugvöllur eigi að víkja úr Vatnsmýrinni eða ekki. Í því samhengi er mikilvægt að hvetja til hófstilltrar og málefnalegrar umræðu, í stað þess að sá fræjum sundurlyndis. Ummæli forsætisráðherra um að borgaryfirvöld beiti brögðum til að losna við Reykjavíkurflugvöll eru í því ljósi óheppileg sem og sú hugmynd að ráðherra fari með yfirstjórn skipulags- og mannvirkjamála á Reykjavíkurflugvelli. Að taka skipulagsvald frá sveitarfélögum er ekki skynsamlegt og ekki í anda þess að færa ákvarðanatöku í skipulagsmálum nær almenningi.

Hvert skal halda?

Eins og með önnur málefni getur umræða um arkitektúr og skipulag verið snúin, þar sem hægt er að sjá viðfangsefnið út frá mörgum ólíkum sjónarhornum. Þessi fjölmörgu sjónarhorn geta þó að sama skapi verið uppspretta fyrir frjóar og skemmtilegar samræður. Í því ljósi viljum við bjóða stjórnvöldum upp á samtal um okkar byggða umhverfi, hvort sem það er stórt eða lítið, gamalt eða nýtt. Samtal um hvernig þessar stéttir vinna, við að greina umhverfið og þróa það með fagmennsku að leiðarljósi en þó umfram allt samtal um framtíðina; hvernig stjórnvöld, fagaðilar og íbúar geta mótað hið byggða umhverfi í sameiningu og skapað þannig ramma utan um skemmtilegt og fjölbreytilegt samfélag.

Fyrir hönd stjórna Arkitektafélags Íslands, Félags íslenskra landslagsarkitekta og Skipulagsfræðingafélags Íslands,

Aðalheiður Atladóttir, formaður AÍ
Hermann Georg Gunnlaugsson, formaður FÍLA
Erla Margrét Gunnarsdóttir, formaður SFFÍ

Ný stjórn SFFÍ kosin á aðalfundi

Á síðasta aðalfundi Skipulagsfræðingafélags Íslands var kosin ný stjórn en hana skipa Erla Margrét Gunnarsdóttir (formaður), Jón Kjartan Ágústsson, Gunnar Ágústsson, Ragnar Björgvinsson og Guðrún Dóra Brynjólfsdóttir. Tvö síðastnefndu koma ný inn í stjórn. Úr stjórn fóru Einar Jónsson og Sjöfn Ýr Hjartardóttir. Ný stjórn vill þakka þeim fyrir unnin störf í þágu félagsins.

Á fundinum var farið yfir síðastliðið ár hjá félaginu og lögð áhersla á stefnumótun fyrir komandi ár. Sköpuðust umræður um að setja þurfi skýrari stefnu fyrir félagið og var það verkefni lagt fyrir hina nýju stjórn.

Ný stjórn SFFÍ 2015

Ný stjórn SFFÍ 2015; Ragnar, Guðrún Dóra, Gunnar, Erla Margrét og Jón Kjartan.

Tillaga frá stjórn SFFÍ um lagabreytingu

Stjórn Skipulagsfræðingafélags Íslands leggur til eftirfarandi lagabreytingu fyrir aðalfund:

Lög SFFÍ – Tillaga að lagabreytingu á 6.grein

6.grein núverandi:
Stjórn félagsins skal skipuð formanni, ritara og gjaldkera auk eins varamanns. Skal hún kosin á aðalfundi til eins árs í senn. Formaður félagsins skal kosinn á aðalfundi úr hópi stjórnarinnar, en stjórnin skiptir sjálf með sér verkum að öðru leyti á fyrsta fundi eftir aðalfund. Ritari gegnir hlutverki varaformanns. Við stjórnarkjör skal tryggt að a.m.k. einn úr fráfarandi stjórn sitji áfram og a.m.k. tveir aðalmenn í stjórninni skulu hafa hlotið löggildingu starfsheitisins skipulagsfræðingur. Kosning skal vera leynileg ef þess er óskað.
Stjórnin fer með æðsta vald félagsins milli aðalfunda, sinnir rekstri og gætir hagsmuna félagsheildarinnar. Stjórnin skal halda félagatal og fjalla um umsóknir nýrra félaga. Stjórninni er heimilt að skipa nefndir til að sinna tilteknum málefnum félagsins í umboði stjórnar. Við skipun nefnda skal hlutverk þeirra skilgreint og valdsvið gagnvart stjórn.
Stjórnarfund skal halda eigi sjaldnar en annan hvern mánuð. Skylt er að boða stjórnarfund ef tveir menn úr stjórn óska þess. Stjórnarfundur er ályktunarfær ef þrír stjórnarmenn sækja fundinn. Halda skal fundargerðir á stjórnarfundum.

Breytingatilllagan á 6.grein hljóðar svo að í stjórn félagsins verði fimm aðalmenn og varamaður detti út.

Fyrsta setning 6.greinar hljóðar því svo “Stjórn félagsins skal skipuð formanni, ritara, gjaldkera auk tveggja meðstjórnenda.”

Rökin fyrir breytingatillögunni á 6.grein eru þau að með fleiri aðalmönnum verði verkaskipting auðveldari og félagið hafi tök á að vinna að fleiri hlutum.

6.grein með breytingartillögu:
Stjórn félagsins skal skipuð formanni, ritara, gjaldkera auk tveggja meðstjórnenda. Skal hún kosin á aðalfundi til eins árs í senn. Formaður félagsins skal kosinn á aðalfundi úr hópi stjórnarinnar, en stjórnin skiptir sjálf með sér verkum að öðru leyti á fyrsta fundi eftir aðalfund. Ritari gegnir hlutverki varaformanns. Við stjórnarkjör skal tryggt að a.m.k. einn úr fráfarandi stjórn sitji áfram og a.m.k. tveir aðalmenn í stjórninni skulu hafa hlotið löggildingu starfsheitisins skipulagsfræðingur. Kosning skal vera leynileg ef þess er óskað.
Stjórnin fer með æðsta vald félagsins milli aðalfunda, sinnir rekstri og gætir hagsmuna félagsheildarinnar. Stjórnin skal halda félagatal og fjalla um umsóknir nýrra félaga. Stjórninni er heimilt að skipa nefndir til að sinna tilteknum málefnum félagsins í umboði stjórnar. Við skipun nefnda skal hlutverk þeirra skilgreint og valdsvið gagnvart stjórn.
Stjórnarfund skal halda eigi sjaldnar en annan hvern mánuð. Skylt er að boða stjórnarfund ef tveir menn úr stjórn óska þess. Stjórnarfundur er ályktunarfær ef þrír stjórnarmenn sækja fundinn. Halda skal fundargerðir á stjórnarfundum.

Lög SFFÍ – Tillaga að lagabreytingu á 8.grein

8.grein núverandi
Árgjald skal ákveða á aðalfundi. Námsmenn með aukaaðild að félaginu skulu greiða fjórðung árgjalds. Heiðursfélagar eru undanþegnir árgjaldi. Gjalddagi er 1. mars. Atkvæðisrétt á fundum eiga þeir félagsmenn sem skuldlausir eru við félagið. Jafnframt geta aðeins þeir félagsmenn sem skuldlausir eru við félagið setið í stjórnum og nefndum á vegum félagsins.

Breytingatillagan á 8.grein hljóðar svo að stjórn félagsins verði undanskilin greiðslu félagsgjalda.

Þiðja setning 8.greinar hljóðar því svo: “Heiðursfélagar og stjórn félagsins eru undanþegin árgjaldi.”

Rökin fyrir breytingartillögunni á 8.grein er sú að stjórnarmeðlimir vinna mikið og óeigingjarnt starf í þágu félagsins sem er með öllu ólaunað.

8.grein með breytingartillögu:
Árgjald skal ákveða á aðalfundi. Námsmenn með aukaaðild að félaginu skulu greiða fjórðung árgjalds. Heiðursfélagar og stjórn félagsins eru undanþegin árgjaldi. Gjalddagi er 1. mars. Atkvæðisrétt á fundum eiga þeir félagsmenn sem skuldlausir eru við félagið. Jafnframt geta aðeins þeir félagsmenn sem skuldlausir eru við félagið setið í stjórnum og nefndum á vegum félagsins.
——

Erindi þetta verður borið undir næsta aðalfund, n.k. þriðjudag.

 

 

AÐALFUNDARBOÐ SFFÍ 2015

Kæru félagsmenn

Stjórn Skipulagsfræðingafélags Íslands boðar til aðalfundar félagsins þriðjudaginn 31. mars nk. kl. 16.00 – 18.00.

Aðalfundurinn verður haldinn í Gym & Tonic salnum á Kex Hostel, Skúlagötu 28.

Dagskrá:
1. Ársskýrsla stjórnar
2. Uppgjör reikninga
3. Tillögur að lagabreytingum
4. Kosning í stjórn og nefndir
5. Kosning skoðunarmanna reikninga
6. Upphæð árgjalda ákveðin
7. Önnur mál

Vakin er sérstök athygli á því að breytingar verða á stjórn. Einar Jónsson hefur tilkynnt að hann muni láta af embætti ritara og hætta í stjórn. Einnig hefur Sjöfn Ýr Hjartardóttir ákveðið að hætta í varastjórn.

Framboð í stjórn félagsins þurfa að berast fyrir aðalfund (skipulagsfraedi[hjá]gmail.com) og lagabreytingar þurfa að berast 5 dögum fyrir aðalfund.

 

Að loknum aðalfundarstörfum mun Gunnar Ágústsson kynna vinnu íðorðanefndar SFFÍ og Jón Kjartan Ágústsson mun kynna Hverfisskipulag Reykjavíkurborgar og hvað er framundan þar.

 

Hlökkum til að sjá sem flesta.

 

Bestu kveðjur,

Stjórnin

Borgir og borgarskipulag eftir Bjarna Reynarsson skipulagsfræðing

Út er komin bókin Borgir og borgarskipulag eftir Bjarna Reynarsson. Um er að ræða aðgengilegt fræðirit sem mikill fengur er í fyrir alla sem áhuga hafa á sögu borga og skipulagi. Hér bætir Bjarni Reynarsson úr brýnni þörf með yfirlitsriti þar sem raktar eru hugmyndir um borgarskipulag frá upphafi vega.

 

Borgir og borgarskipulag

Borgir og borgarskipulag

Sérstaklega er fjallað um þær tvær borgir sem kalla hefur mátt höfuðborgir Íslands, Kaupmannahöfn og Reykjavík. Í kynningu á verkinu hjá Skruddu segir:

„Borgir hafa verið til í árþúsundir en Reykjavík aðeins í rúm 100 ár. Íslensk menning er að stofni til dreifbýlismenning en borgarmenning barst fyrst hingað til lands frá Kaupmannahöfn á seinni hluta 19. aldar. Í bókinni er fjallað um sögulega þróun og skipulag borga og það sett í samhengi við skipulagssögu Reykjavíkur.

Bókinni er skipt í þrjá meginþætti. Í fyrsta lagi, upphaf og sögulega þróun vestrænna borga. Í öðru lagi, þróun og skipulag Kaupmannahafnar sem var höfuðborg Íslands í hartnær fimm aldir og í þriðja lagi, þróun og skipulag Reykjavíkur og höfuðborgarsvæðisins.

Hér er á ferðinni fyrsta yfirlitsrit á íslensku um þróun borga frá örófi alda til okkar tíma. Bókin er aðgengileg öllum þeim sem áhuga hafa á skipulagi borga og menningarsögu almennt. Um 500 myndir, kort og skýringarmyndir prýða bókina.“

Smellið hér til að skoða/kaupa bókina hjá útgefanda

 

Andi Snæfellsness hlaut Skipulagsverðlaunin 2014

Svæðisskipulag Snæfellsness 2014 – 2026,  Andi Snæfellsness – auðlind til sóknar, hlaut Skipulagsverðlaunin 2014 sem afhend voru í gær af Skipulagsfræðingafélagi Íslands í Ráðhúsi Reykjavíkur.

Svæðisskipulag Snæfellsness 2014 – 2026 var unnið af ráðgjafarfyrirtækinu Alta ehf og standa sveitarfélögin fimm á Snæfellsnesi að skipulaginu, en þau eru Snæfellsbær, Stykkishólmur, Grundarfjarðarbær, Eyja- og Miklaholtshreppur og Helgafellssveit.

Skipulagsverðlaunin 2014

Verðlaunahafar ásamt Hjálmari Sveinssyni og Erlu Margréti Gunnarsdóttur við afhendingu verðlaunanna.

Mótun svæðisskipulagsins hefur verið í nánu samstarfi við samtök í atvinnulífinu og íbúa á Snæfellsnesi sem standa með sveitarfélögunum að verkefni um stofnun svæðisgarðs á Snæfellsnesi. Að mati dómnefndar var svæðisskipulagið afar vel unnið, mun nýtast vel til aðalskipulagsgerðar fyrir sveitarfélögin á svæðinu og er góð fyrirmynd fyrir önnur sveitarfélög. Vel er að staðið að greiningum á svæðinu sem og aðgerðaráætlun til framtíðar. Byggðaþróun er byggð á náttúru- og menningarauði og er skipulagið til hagsbóta fyrir íbúa, ferðamenn og umhverfið.

Í umsögn dómnefndar um vinningstillöguna kom meðal annars fram:

„Svæðisskipulagið fellur vel að áherslu verðlaunaveitingarinnar í ár sem er á skipulagsgerð í tengslum við ferðaþjónustu og samþættingu hennar við náttúru og byggt umhverfi.“

„Svæðisskipulag Snæfellsness er langtíma stefnumarkandi skipulagsáætlun um eflingu samfélagsins á Snæfellsnesi á grunni staðaranda og auðlinda svæðisins.“

 

Nemendaverðlaunin hlaut Íris Stefánsdóttir fyrir mastersritgerð sína í Skipulagsfræðum við Landbúnaðarháskóla Íslands „Ferðavenjur skólabarna í Reykjavík – Áhrif hins byggða umhverfis á val ferðamáta“. Var dómnefnd sammála um að hér væri á ferðinni áhugavert grasrótarverkefni. Það er samfélagslega mikilvægt að hafa áhrif á lífstíl og það að ganga í skóla er og verði virkur ferðamáti. Vill dómnefnd hvetja sveitafélög til að huga að ferðavenjum barna við skipulagsgerð.

 

Dómnefnd Skipulagsverðlaunanna 2014 var skipuð af:

  • Erla Margrét Gunnarsdóttir, formaður, tilnefnd af
    Skipulagsfræðingafélagi Íslands,
  • Bergljót S. Einarsdóttir tilnefnd af Arkitektafélagi Íslands,
  • Björn Jóhannsson tilnefndur af Ferðamálastofu,
  • Gísli Gíslason tilnefndur af Félagi Íslenskra landslagsarkitekta,
  • Hjálmar Sveinsson tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitafélaga og
  • Þórarinn Hjaltason tilnefndur af Verkfræðingafélagi Íslands.

 

Allar tillögurnar sem bárust voru til sýnis á verðlaunaafhendingunni í Ráðhúsinu og sköpuðust góðar umræður um mikilvægi samþættingu skipulagsgerðar við náttúruna, byggt umhverfi sem og þátt ört vaxandi ferðaþjónustu í skipulagi.

 

Nánari upplýsingar um tilnefningar og umsögn dómnefndar í heild sinni má finna hér.

Nánari upplýsingar um Svæðisskipulag Snæfellsness má finna í heild sinni á heimasíðu Svæðisgarðs Snæfellsness:
http://svaedisgardur.is/frettir/103-svaedhisskipulag-snaefellsness-2014-2026

Skipulagsverdlaunin2014_Snaefellsnes_svsk.tillaga-1