Sjálfbært skipulag – málþing

Þann 25. apríl nk. verður haldið málþing á vegum Umhverfis- og byggingarverkfræðideildar HÍ um sjálfbært skipulag. Í vetur hafa kennarar í fjórum námsskeiðum við deildina látið stúdenta gera tillögur í sjálfbærum anda um ýmsa þætti skipulags Háskólasvæðisins.

Kreppan þrýstir á um sjálfbærnihugsun því fólk hefur minni tekjur og bensínverð hefur hækkað. Margir veigra sig því við löngum akstursleiðum, t.d. frá úthverfunum, og vilja frekar búa miðlægt. Til að geta dregið úr akstri og mætt óskinni um að búa miðlægt þarf að stefna að skipulagi sem eykur þéttleika í eldri hluta Reykjavíkur og leyfa meiri blöndun, t.d. með byggingu íbúðarhúsnæðis nálægt stórum vinnustöðum, eins og t.d. á Háskólasvæðinu. Þetta mundi minnka bílaumferð á Hringbraut og innan svæðins, fækka bílastæðum og spara fólki tíma.

Háskólasvæðið er í dag mjög dreift og bíllinn hefur verið í forgrunni. Miðlæg starfsemi er oft úti í hornum á svæðinu, eins og t.d. Háskólabókasafnið, en bílastæði í miðjunni. Þetta þýðir langar vegalengdir milli bygginga. Á málþinginu verður einnig sagt frá verðlaunatillögum um friðlandið við Norræna húsið. Einnig verður kynnt sjálfbært regnvatnsskipulag, sem fellst í að skilja ofanvatn frá skólpi og nýta það og hreinsa staðbundið.

Málþingið verður haldið 25. apríl nk. í stofu 132 í Öskju frá 15-17.
Umræður og fyrirspurnir. Kaffiveitingar. Aðgangur ókeypis.
Málþingsstjóri: Guðmundur Freyr Úlfarsson, prófessor.

Lesa meira

Snúast samgöngur aðeins um kostnað?

Málþing 22.mars í Rúgbrauðsgerðinni (mynd GPM)

Skipulagsfræðingafélag Íslands í samstarfi við innanríkisráðuneyti og Vegagerðina hélt málþing fimmtudaginn 22.mars sem bar yfirskriftina Snúast samgöngur aðeins um kostnað?  Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra setti málþingið og flutti ávarp.

Tilgangur málþingsins var að fjalla um samspil skipulags og áhrif þess á samgöngukerfið og raunar allt samfélagið, svo sem byggðaþróun, borgarmynstur búsetu, umhverfismál og fleira. Sérfræðingar á sviði skipulags, arkitektúrs, fjármála og samgöngumála fjölluðu um þá ólíku þætti sem liggja til grundvallar þegar skipulag og samgöngur eru annars vegar. Lesa meira

Málþing um samfélagsleg áhrif skipulags samgangna

Snúast samgöngur eingöngu um kostnað? er yfirskrift málþings um samfélagsleg áhrif skipulags samgöngukerfisins sem haldið verður í Reykjavík fimmtudaginn 22. mars. Málþingið er haldið að frumkvæði innanríkisráðherra í samstarfi við Vegagerðina og Skipulagsfræðingafélag Íslands sem hefur átt veg og vanda að undirbúningi þess.

Tilgangur málþingsins er að fjalla um samspil skipulags og áhrif þess á samgöngukerfið og raunar allt samfélagið, svo sem byggðaþróun, borgarmynstur, búsetu, umhverfismál og fleira. Sérfræðingar á sviði skipulags, arkitektúrs, fjármála og samgöngumála fjalla um þá ólíku þætti sem liggja til grundvallar þegar skipulag og samgöngur eru annars vegar.

Málþingið hefst klukkan 9 fimmtudaginn 22. mars og fer fram í Rúgbrauðsgerðinni við Borgartún í Reykjavík. Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra setur málþingið og síðan taka við fyrirlestrar til klukkan 11.40. Ráðstefnan endar síðan á samantekt og umræðum.

Sýning á verkefnum nemenda í skipulagstengdu framhaldsnámi verður í forsal Rúgbrauðsgerðarinnar. Verkefnin eru unnin við námsbraut í skipulagsfræði við Landbúnaðarháskóla Íslands og námsbraut í umferð og skipulagi við Háskólann í Reykjavík. Aðgangur að málþinginu er ókeypis en þátttakendur eru beðnir að skrá sig með tilkynningu á netfangið: skipulagsfraedi@gmail.com eigi síðar en á hádegi miðvikudaginn 21. mars.

Lesa meira

Á döfunni í mars

Hinn 22. mars kl. 9-12 heldur félagið málþing í Rúgbrauðsgerðinni ásamt Innanríkisráðuneytinu og Vegagerðinni. Þar verður varpað fram spurningunni hvort að samgöngur snúist aðeins um kostnað.

Hinn 27. mars er svo ætlunin að halda aðalfund félagsins. Staðsetning er ekki enn ákveðin. Menntanefnd félagsins vinnur m.a. að tillögu að lagabreytingum í samræmi við samþykkt síðasta aðalfundar.

Nánari upplýsingar varðandi viðburðina munu líta ljós á næstu dögum.

Ritari

Hádegisfundur á alþjóðlega skipulagsdaginn

Í tilefni af alþjóðlega skipulagsdeginum, 8. nóvember, efndi Skipulagsfræðingafélag Íslands til hádegisfundar um skipulagsmál.

Á fundinum sem haldin var í Þjóðarbókhlöðunni voru flutt tvö erindi.

Annað hét “Veðjað á vöxt”, var flutt af Ásdísi Hlökk Teódórsdóttir og greindi hún þar frá verkefni sem hún og Salvör Jónsdóttir o.fl. hafa unnið að á síðustu misserum.

Í erindinu kom Ásdís inn á mismuninn milli framboðs á íbúðum og fjölgun íbúa. Mannfjöldaspár þær sem sveitarfélögin á áhrifasvæði höfuðborgarinnar byggðu aðalskipulög sín á í árunum fyrir hrun virðast margar hverjar ekki hafa verið í tengslum við raunveruleikann eða mannfjöldaspá Hagstofu. Ásdís tók sérstaklega fyrir sveitarfélögin á útjaðri borgarinnar þar sem nokkuð hefur verið um að stór landsvæði hafi verið skipulögð með áherslu á dreifða byggð, svokallaða búgarðarbyggð, og ræddi um hvaða skipulagsvandamál slík byggð hefur í för með sér. Gaman verður að rýna í verkefnisskýrsluna sem kemur út í kringum áramót.

Hitt erindið hét “Skipulagsmistök á höfuðborgarsvæðinu-Niðurstöður viðhorfskönnunar” og var flutt af Agli Þórarinssyni meistaranema í skipulagsfræðum við Landbúnaðarháskóla Íslands.

Egill fór í sínu erindi yfir könnun sem hann gerði í vor varðandi skipulagsslys/framkvæmdir. Þar ræddi hann um að deila megi um hvort hugtakið ”skipulagsslys” eigi rétt á sér vegna þess að  slys  gera ekki boð á undan sér en það gera skipulagsáætlanir. Vonandi heldur Egill áfram með þetta verkefnið því það velti upp hugmyndum um ábyrgð, siðferði, völd, hagsmuni og lýðræði í skipulagi.

Fundurinn var vel sóttur, um 60 manns mættu og spunnust áhugaverðar umræður um bæði erindin.

Ritari