Ný stjórn og formaður SFFÍ

Ný stjórn SFFÍ ásamt fráfarndi stjórnarmeðlimum

Ný stjórn SFFÍ ásamt fráfarandi stjórnarmeðlimum. Efri röð frá v.: Erla Margrét, Jón Kjartan, Sindri, Brynja Dögg, Ragnar, Guðrún Dóra og Gunnar.

Aðalfundur SFFÍ 2016 fór fram þann 25. frebrúar s.l. Á undan hefðbundnum aðalfundi voru flutt þrú ólík erindi um skipulagsmál, skipulagsfræði og hlutverk skipulagsfræðinga. Sköpuðust umræður um málefnin í kjölfarið og ýmsar góðar ábendingar komu fram til nýrrar stjórnar.

Fráfarandi stjórn vill þakka frummælendum kærlega fyrir sín innlegg.

Að loknum umræðum fór fram hefðbundinn aðalfundur þar sem ársreikningur var samþykktur, óbreytt félagsgjöld voru samþykkt og ný stjórn kjörin. Þá var nýr formaður félagsins valinn en það er Gunnar Ágústsson. Gunnar hefur verið í stjórn félagsins frá 2014.

Erla Margrét Gunnarsdóttir og Jón Kjartan Ágústsson gengu úr stjórn félagsins og nýjir stórnarmeðlimir eru Sindri Birgisson og Brynja Dögg Ingólfsdóttir.

Sameiginleg yfirlýsing varðandi nýlegar hugmyndir í arkitektúr og skipulagsmálum

Eftirfarnadi yfirlýsing frá stjórnum Arkitektafélags Íslands, Félags íslenskra landslagsarkitekta og Skipulagsfræðingafélagi Íslands hefur verið send á fjölmiðla:

Yfirlýsing varðandi nýlegar hugmyndir í arkitektúr og skipulagsmálum

Undanfarnar vikur hefur nokkur umræða átt sér stað um arkitektúr og skipulagsmál, einkum í kjölfar hugmynda forsætisráðherra, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, um málefni þessu tengdu. Stjórnir þriggja fagfélaga sem starfa á þessu sviði vilja í þessu samhengi bregðast við nokkrum af þeim atriðum sem borið hefur á góma:

Hugmyndir um viðbyggingu við Alþingishúsið eftir 100 ára gamalli teikningu Guðjóns Samúelssonar

Það er afar óeðlilegt að ætla að ákveða útlit byggingar með jafn afgerandi hætti og lagt er til í þingsályktunartillögu um aldarafmæli fullveldis Íslands sem birt var þann 1. apríl síðastliðinn. Þó að mikilvægt sé að huga að sögulegu gildi umhverfis þá er það veik framtíðarsýn að taka útgangspunkt í fortíðinni. Mikilvægt er að uppbygging og hönnun endurspegli raunveruleika þess samfélags sem er til staðar hverju sinni. Því er mun nær að leggja alúð við að greina samhengi viðkomandi verkefnis svo hægt verði að fletta saman nýju og gömlu á auðmjúkan en skapandi hátt.

Endurbygging Valhallar á Þingvöllum

Uppbyggingu í Þjóðgarðinum á Þingvöllum þarf að skoða í víðara samhengi, en með hvaða hætti Valhöll verður endurbyggð, líkt og lagt er til í áður nefndri þingsályktunartillögu. Liggja þarf fyrir skýr framtíðarsýn um þjóðgarðinn í heild sinni í tengslum við náttúru, sögulegt umhverfi og heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna, áður en teknar eru ákvarðanir um einstakar aðgerðir. Endurskoðun á stefnumótun fyrir Þingvelli, þar sem mótuð er framtíðarsýn fyrir þjóðgarðinn, er því lykilatriði. Þannig er unnt að taka ákvarðanir sem byggðar eru á skynsömum og faglegum grunni, á þessum stað sem er okkur öllum svo kær.

Hugmynd um nýja staðsetningu Landspítalans

Þó að ákvörðun um staðsetningu Landspítala sé umdeild þá er hún byggð á faglegri skipulagsgerð og hefur farið í gegnum lögbundna ferla. Það er því afar gagnrýnisvert að setja jafn mikilvægt verkefni í uppnám með illa ígrunduðum pælingum um aðra staðsetningu. Því er vert að hafa í huga að orðum fylgja ábyrgð.

Framtíð Reykjavíkurflugvallar

Skiptar skoðanir eru um hvort Reykjavíkurflugvöllur eigi að víkja úr Vatnsmýrinni eða ekki. Í því samhengi er mikilvægt að hvetja til hófstilltrar og málefnalegrar umræðu, í stað þess að sá fræjum sundurlyndis. Ummæli forsætisráðherra um að borgaryfirvöld beiti brögðum til að losna við Reykjavíkurflugvöll eru í því ljósi óheppileg sem og sú hugmynd að ráðherra fari með yfirstjórn skipulags- og mannvirkjamála á Reykjavíkurflugvelli. Að taka skipulagsvald frá sveitarfélögum er ekki skynsamlegt og ekki í anda þess að færa ákvarðanatöku í skipulagsmálum nær almenningi.

Hvert skal halda?

Eins og með önnur málefni getur umræða um arkitektúr og skipulag verið snúin, þar sem hægt er að sjá viðfangsefnið út frá mörgum ólíkum sjónarhornum. Þessi fjölmörgu sjónarhorn geta þó að sama skapi verið uppspretta fyrir frjóar og skemmtilegar samræður. Í því ljósi viljum við bjóða stjórnvöldum upp á samtal um okkar byggða umhverfi, hvort sem það er stórt eða lítið, gamalt eða nýtt. Samtal um hvernig þessar stéttir vinna, við að greina umhverfið og þróa það með fagmennsku að leiðarljósi en þó umfram allt samtal um framtíðina; hvernig stjórnvöld, fagaðilar og íbúar geta mótað hið byggða umhverfi í sameiningu og skapað þannig ramma utan um skemmtilegt og fjölbreytilegt samfélag.

Fyrir hönd stjórna Arkitektafélags Íslands, Félags íslenskra landslagsarkitekta og Skipulagsfræðingafélags Íslands,

Aðalheiður Atladóttir, formaður AÍ
Hermann Georg Gunnlaugsson, formaður FÍLA
Erla Margrét Gunnarsdóttir, formaður SFFÍ

Skipulagsverðlaunin 2014, ósk um tilnefningar

Tekið er við tilnefningum til 3. nóvember

Ósk um tilnefningar

Skipulagsverðlaunin eru veitt annað hvert ár til sveitarfélaga, stofnana eða einkaaðila sem hafa gert vel á sviði skipulagsmála og lagt sitt af mörkum til að bæta og fegra umhverfi í þéttbýli og dreifbýli með faglegri skipulagsgerð. Markmið verðlaunanna er að hvetja til umræðu, auka skilning á skipulagsmálum og vekja athygli á því besta sem er að gerast á sviði skipulags á hverjum tíma.

Í ár verður sérstök áhersla lögð á skipulagsgerð í tengslum við ferðaþjónustu og samþættingu hennar við það byggða umhverfi og náttúru sem fyrir er. Einkum verður skoðað hvernig faglega unnin skipulagsgerð getur styrkt staðaranda og styrkt samfélög, til hagsbóta fyrir íbúa, ferðamenn og umhverfið.

Skipulagsverðlaunin eru annars vegar veitt fyrir skipulag, þ.e. skipulagstillögu eða staðfest skipulag og hins vegar fyrir sérstök og afmörkuð verkefni í tengslum við skipulag, svo sem frumkvöðlastarf og nýbreytni eða miðlun upplýsinga um skipulagsmál, svo eitthvað sé nefnt.

Tilnefningar mega koma frá sveitarfélögum, stofnunum, fyrirtækjum eða einstaklingum. Ekki er nauðsynlegt að höfundar tilnefni verk sín sjálfir. Skipulagsverkefni á öllum skipulagsstigum eru gjaldgeng til skipulagsverðlaunanna.

Tilnefningar til Skipulagsverðlaunanna 2014 ásamt viðeigandi gögnum t.d. uppdráttum og greinargerð ásamt rökstuðningi skal senda á netfangið skipulagsfraedi@gmail.com eigi síður en 3 nóvember 2014. Gögn skulu vera á pdf formi.

Þátttaka er öllum heimil.

Nýr formaður, ný heimasíða o.fl.

Stjórn 2014

Ný stjórn SFFÍ 2014

Aðalfundur félagsins var haldinn 31.mars s.l. þar sem nýr formaður var kosinn, Erla Margrét Gunnarsdóttir, auk þess ákveðið var að bæta við öðrum varamanni í stjórn, Gunnari Ágústssyni sem einnig er nýr vefstjóri.

Þá var ný heimasíða sett á laggirnar og stendur til að styrkja hana enn frekar í framtíðinni bæði sem málgagn félagsins og upplýsingaveitu.

Þá voru ýmis önnur mál rædd og ber helst þar að nefna fagorðasafn en félagsmenn hafa gjarnan rekist á skort á íslenskum hugtökum við störf sín. Stefnir félagið á að bætar úr því.

Á myndinni hér fyrir ofan má sjá nýju stjórnina: F.v. Gunnar Ágústsson (varamaður + vefstjóri), Jón Kjartan Ágústsson (gjaldkeri), Erla Margrét Gunnarsdóttir (formaður), Einar Jónsson (ritari) og Sjöfn Ýr Hjartardóttir (varamaður).

Þá voru flutt erindi um stöðu nýs svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins og landsskipulag að loknum fundi.

Stjórn þakkar fráfarandi formanni, Sverri Erni Sverrissyni, fyrir vel unnin störf í þágu félagsins síðustu ár.

Stjórn félagsins 2013 ásamt nýjum formanni

Stjórn félagsins 2013 ásamt nýjum formanni

Aðalfundur 2014

Góðir félagsmenn

Stjórn Skipulagsfræðingafélags Íslands boðar til aðalfundar félagsins mánudaginn 31. mars  nk. kl. 14:00-17:00.

Fundurinn verður haldinn í sal Verkfræðingafélagsins að Engjateig 9.

Dagskrá:
1. Ársskýrsla stjórnar
2. Uppgjör reikninga
3. Tillögur að lagabreytingum
4. Kosning í stjórn og nefndir
5. Kosning skoðunarmanna reikninga
6. Upphæð árgjalda ákveðin
7. Önnur mál (ný heimasíða….)

Vakin er sérstök athygli á því að breytingar verða á stjórn. Sverrir Örvar Sverrisson mun láta af embætti formanns og hætta í stjórn.

Framboð í stjórn félagsins þurfa að berast fyrir aðalfund (skipulagsfraedi[hjá]gmail.com). Stjórn vill sérstaklega hvetja konur til að sækjast eftir embætti þar sem ákveðin karllæg skekkja hefur verið í stjórnarliðinu síðustu ár.
Að ársfundi loknum verða haldin tvö erindi um:
– Svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins
– Landsskipulag

Stjórnin