Vogabyggð hlýtur Skipulagsverðlaunin 2016

Vogabyggð – svæði 2 hlaut Skipulagsverðlaunin 2016 sem afhend voru þann 14. febrúar 2017 í Hannesarholti. Deiliskipulagið er unnin af Teiknistofunni Tröð, Jaakko van’t Spijker (Hollandi) og Felixx (Hollandi).


Deiliskipulagið er nær yfir iðnaðarsvæði í Vogahverfi, Reykjavík, sem á að umbreytta í íbúðar- og þjónustusvæði. Að mati dómnefndar er tillagan góð lausn sem setur fram spennandi og nútímalega borgarsýn en leysir einnig vel úr töluverðu flækjustigi. Þétt fjölbreytt byggð þar sem gert er ráð fyrir öllum ferðamátum og almenningssvæðum er gert hátt undir höfði. Gott samspil er á milli núverandi mannvirkja á svæðinu og nýrrar byggðar. Vel er hugað að staðaranda og náttúru auk þess að nærumhverfi Elliðaánna er nálgast á varfærinn en skapandi hátt. Lesa meira

Skipulagsverðlaunin 2016 – ósk um tilnefningar

skipulagsverdlaunin

Skipulagsverðlaunin eru veitt annað hvert ár til sveitarfélaga, stofnana eða einkaaðila sem hafa gert vel á sviði skipulagsmála og lagt sitt af mörkum til að bæta og fegra umhverfi í þéttbýli eða dreifbýli með faglegri skipulagsgerð.

Markmið verðlaunanna er að hvetja til umræðu, auka skilning á skipulagsmálum og vekja athygli á því besta sem er að gerast á sviði skipulags á hverjum tíma.

Í ár verður áhersla lögð á endurnýjun svæða. Leitað er eftir skipulagsgerð þar sem unnið er með breytta landnotkun og/eða nýtingu og/eða starfsemi á þegar byggðu svæði. Við mat á tillögum verður litið til þess hvernig faglega unnin skipulagsgerð getur styrkt staðaranda, nærumhverfi og samfélög.

Engin takmörk eru sett á stærð svæðis/lóðar né umfangi breytinga.

Skipulagsverðlaunin eru annars vegar veitt fyrir skipulag, þ.e. skipulagstillögu eða staðfest skipulag og hins vegar fyrir sérstök og afmörkuð verkefni í tengslum við skipulag, svo sem frumkvöðlastarf og nýbreytni eða miðlun upplýsinga um skipulagsmál, svo eitthvað sé nefnt.

Tilnefningar mega koma frá sveitarfélögum, stofnunum, fyrirtækjum eða einstaklingum. Ekki er nauðsynlegt að höfundar tilnefni verk sín sjálfir.

Skipulagsverkefni á öllum skipulagsstigum eru gjaldgeng til skipulagsverðlaunanna.

Tilnefningar til Skipulagsverðlaunanna 2016 ásamt viðeigandi gögnum t.d. uppdráttum og greinargerð ásamt rökstuðningi skal senda á netfangið skipulagsfraedi@gmail.com eigi síður en 28. nóvember 2016. Gögn skulu vera á pdf formi.

Þátttaka er öllum heimil.

Skipulagsverðlaunin 2014, ósk um tilnefningar

Tekið er við tilnefningum til 3. nóvember

Ósk um tilnefningar

Skipulagsverðlaunin eru veitt annað hvert ár til sveitarfélaga, stofnana eða einkaaðila sem hafa gert vel á sviði skipulagsmála og lagt sitt af mörkum til að bæta og fegra umhverfi í þéttbýli og dreifbýli með faglegri skipulagsgerð. Markmið verðlaunanna er að hvetja til umræðu, auka skilning á skipulagsmálum og vekja athygli á því besta sem er að gerast á sviði skipulags á hverjum tíma.

Í ár verður sérstök áhersla lögð á skipulagsgerð í tengslum við ferðaþjónustu og samþættingu hennar við það byggða umhverfi og náttúru sem fyrir er. Einkum verður skoðað hvernig faglega unnin skipulagsgerð getur styrkt staðaranda og styrkt samfélög, til hagsbóta fyrir íbúa, ferðamenn og umhverfið.

Skipulagsverðlaunin eru annars vegar veitt fyrir skipulag, þ.e. skipulagstillögu eða staðfest skipulag og hins vegar fyrir sérstök og afmörkuð verkefni í tengslum við skipulag, svo sem frumkvöðlastarf og nýbreytni eða miðlun upplýsinga um skipulagsmál, svo eitthvað sé nefnt.

Tilnefningar mega koma frá sveitarfélögum, stofnunum, fyrirtækjum eða einstaklingum. Ekki er nauðsynlegt að höfundar tilnefni verk sín sjálfir. Skipulagsverkefni á öllum skipulagsstigum eru gjaldgeng til skipulagsverðlaunanna.

Tilnefningar til Skipulagsverðlaunanna 2014 ásamt viðeigandi gögnum t.d. uppdráttum og greinargerð ásamt rökstuðningi skal senda á netfangið skipulagsfraedi@gmail.com eigi síður en 3 nóvember 2014. Gögn skulu vera á pdf formi.

Þátttaka er öllum heimil.

Skipulagsverðlaunin 2012

ASK arkitektar taka við skipulagsverðlaununum 2012

Skipulagsverðlaunin 2012 voru afhent á Alþjóðlega skipulagsdaginn 8. nóvember. Verðlaunin hlutu ASK arkitektar fyrir Vísindagarða Háskóla Íslands. Sérstaka viðurkenningu fengu 3 nemar úr HR fyrir verkefni sitt – Nýtt skipulag í Spönginni Grafarvogi, hagnýtt verkefni í bæjarkönnun.

Sjá fréttatilkynningu.

Umfjöllun á heimasíðu Arkitektafélagsins.

 

 

 

Verðlaunin voru afhent með viðhöfn í Iðnó og áður en að verðalaunaafhendingu kom hélt Egill Guðmundsson, arkitekt hjá Arkís erindi um vistvæn viðmið í skipulagsgerð.

Ester Anna Ármannsdóttir tekur við viðurkenningunni fyrir hönd síns hóps

Að því loknu hélt Björn Axelsson landslagsarkitekt hjá Umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar erindi um hverfaskipulag.

Skipulagsfræðingafélag Íslands óskar verðlaunahöfum hjartanlega til hamingju. Eins vill félagið þakka undirbúningsnefnd og framsögumönnum fyrir sinn þátt í að gera verðlaunin eins vegleg og raun bar vitni. Að lokum vill félagið þakka Skipulagsstofnun fyrir veittan stuðning.

Skipulagsverðlaunin 2012 afhent á Alþjóðlega skipulagsdeginum 8.nóvember

Skipulagsverðlaun SFFÍ verða afhent í Iðnó, fimmtudaginn 8. nóvember, sem er alþjóðlegur skipulagsdagur. Athöfnin hefst kl. 15:00 en þetta er í fjórða sinn sem verðlaunin eru veitt.

Markmið skipulagsverðlaunanna er að hvetja til umræðu um skipulagsmál og vekja athygli á því besta sem er að gerast á sviði skipulagsmála á Íslandi á hverjum tíma.  Verðlaunin eru veitt annað hvert ár. Í þetta sinn er athyglinni beint sérstaklega að vistvænum áherslum.  Það er Skipulagsfræðingafélag Íslands sem stendur fyrir verðlaununum, í samstarfi við Vistbyggðarráð.

Dagskrá
Lesa meira