Skipulagsverðlaunin 2012

ASK arkitektar taka við skipulagsverðlaununum 2012

Skipulagsverðlaunin 2012 voru afhent á Alþjóðlega skipulagsdaginn 8. nóvember. Verðlaunin hlutu ASK arkitektar fyrir Vísindagarða Háskóla Íslands. Sérstaka viðurkenningu fengu 3 nemar úr HR fyrir verkefni sitt – Nýtt skipulag í Spönginni Grafarvogi, hagnýtt verkefni í bæjarkönnun.

Sjá fréttatilkynningu.

Umfjöllun á heimasíðu Arkitektafélagsins.

 

 

 

Verðlaunin voru afhent með viðhöfn í Iðnó og áður en að verðalaunaafhendingu kom hélt Egill Guðmundsson, arkitekt hjá Arkís erindi um vistvæn viðmið í skipulagsgerð.

Ester Anna Ármannsdóttir tekur við viðurkenningunni fyrir hönd síns hóps

Að því loknu hélt Björn Axelsson landslagsarkitekt hjá Umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar erindi um hverfaskipulag.

Skipulagsfræðingafélag Íslands óskar verðlaunahöfum hjartanlega til hamingju. Eins vill félagið þakka undirbúningsnefnd og framsögumönnum fyrir sinn þátt í að gera verðlaunin eins vegleg og raun bar vitni. Að lokum vill félagið þakka Skipulagsstofnun fyrir veittan stuðning.

Skipulagsverðlaunin 2012 afhent á Alþjóðlega skipulagsdeginum 8.nóvember

Skipulagsverðlaun SFFÍ verða afhent í Iðnó, fimmtudaginn 8. nóvember, sem er alþjóðlegur skipulagsdagur. Athöfnin hefst kl. 15:00 en þetta er í fjórða sinn sem verðlaunin eru veitt.

Markmið skipulagsverðlaunanna er að hvetja til umræðu um skipulagsmál og vekja athygli á því besta sem er að gerast á sviði skipulagsmála á Íslandi á hverjum tíma.  Verðlaunin eru veitt annað hvert ár. Í þetta sinn er athyglinni beint sérstaklega að vistvænum áherslum.  Það er Skipulagsfræðingafélag Íslands sem stendur fyrir verðlaununum, í samstarfi við Vistbyggðarráð.

Dagskrá
Lesa meira

Skipulagsverðlaunin 2012

Skipulagsfræðingafélag Íslands og Vitbyggðarráð auglýsa í sameiningu eftir tilnefningum fyrir skipulagsverðlaunin 2012.

Markmið skipulagsverðlaunanna er að hvetja til umræðu um skipulagsmál og vekja athygli á því besta sem er að gerast á sviði skipulagsmála á Íslandi á hverjum tíma.  Verðlaunin eru veitt annað hvert ár. Í þetta sinn verður athyglinni beint sérstaklega að vistvænum áherslum við veitingu skipulagsverðlaunanna.

Nánari upplýsingar er að finna í hjálagðri auglýsingu  –  skipulagsverðlaun auglýsing2012

Skipulagsverðlaun SFFÍ 2010

Verðlaunahafar skipulagsverðlauna SFFÍ 2010 ásamt Bjarka formanni

Skipulagsverðlaun Skipulagsfræðingafélags Íslands voru veitt í gær 8.nóvember á Alþjóðlega skipulagsdeginum í Ráðhúsi Reykjavíkur. Verðlaunin hlaut Ísafjarðarbær fyrir Aðalskipulag 2008-2020. Í niðurstöðu dómefndar segir m.a: „Að einu leyti er Aðalskipulag Ísafjarðarbæjar 2008-2020 frábrugðið öðrum hliðstæðum áætlunum. Sérstaðan er fólgin í því verklagi sem unnið var eftir við skipulagsgerðina. Þar er með góðum árangri gengið lengra í samráði og samvinnu við íbúa og hagsmunaaðila en lög og reglur gera ráð fyrir og að því er virðist í góðri sátt allra hlutaðeigandi aðila.“

Tinna Haraldsdóttir og leiðbeinendur hennar

Sérstaka viðurkenningu fyrir framlag til umræðu um umbætur í skipulagsferlinu hlaut Tinna Haraldsdóttir fyrir lokaverkefni sitt frá Umhverfisdeild Landbúnaðarháskóla Íslands er ber heitið: „Samskipti, völd og skipulag. Hvernig fer það saman? Greining á aðkomu almennings að skipulagsferlinu á vestanverðu Kársnesi, Kópavogi.“

Greinargerð dómnefndar má nálgast hér.

Stjórn SFFÍ þakkar Skipulagstofnun og Reykjavíkurborg veittan stuðning.

Skipulagsverðlaun SFFÍ 2010 – dagskrá

Skipulagsverðlaun Skipulagsfræðingafélags Íslands árið 2010 verða veitt á Alþjóðlega skipulagsdeginum 8. nóvember í Ráðhúsi Reykjavíkur. Verðlaunin eru veitt í samvinnu við Skipulagsstofnun annað hvert ár og í ár bárust níu tilnefningar til verðlaunanna.

Dagskrá verðlaunaafhendingar:

16.00-16.10: Móttaka.
16.10-16.20: Setning Skipulagsverðlauna 2008, Hjálmar Sveinsson.
16.20-16.30:  Hjálmar Sveinsson, varaformaður skipulagsráðs Reykjavíkurborgar.
16.30-16.40: Tónlist. Guðmundur Freyr Hallgrímsson leikur á píanó.
16.40-17.00: Dr. Bjarki Jóhannesson, formaður SFFÍ gerir grein fyrir niðurstöðum dómnefndar og afhendir verðlaun.
17.00: Dagskrá lýkur.

Skipulagsverðlaun SFFÍ 2010

Skipulagsverðlaunin 2010 verða veitt á Alþjóðlega skipulagsdeginum 8. nóvember nk. Það er Skipulagsfræðingafélag Íslands sem veitir verðlaunin í samvinnu við Skipulagsstofnun annað hvert ár. Markmið verðlaunanna er að hvetja til umræðu um skipulagsmál og vekja athygli á því besta sem er að gerast á sviði skipulags á hverjum tíma. Þátttaka er öllum heimil og þurfa tilnefningar að berast fyrir 29. október nk.

Skipulagsverðlaunin eru veitt fyrir skipulagstillögu eða verkefni sem tilnefnt hefur verið af sveitarfélögum, stofnunum, fyrirtækjum eða einstaklingum. Ekki er nauðsynlegt að höfundar tilnefni verkefni sín sjálfir. Einnig má tilnefna þætti sem hafa orðið til að auka umræðu og skilning á skipulagsmálum, t.a.m. fyrirlestraröð, íbúaþing, umfjöllun í fjölmiðlum, starfsemi íbúasamtaka, rannsóknir o.s.frv. sem eru tákn fyrir nýja hugsun og þróa áfram íslenska skipulagshefð. Hefð sem dregur fram landslag, einkenni og sérkenni borga og bæja, er íbúunum og samfélagi þeirra til hagsbóta og tekur mið af sjálfbærri þróun sem nýrri vídd í hinu byggða umhverfi.

Formaður dómnefndar er fulltrúi úr Skipulagsfræðingafélagí Íslands en dómnefnd er skipuð fulltrúum úr Skipulagsfræðingafélagi Íslands, Arkitektafélagi Íslands, Félagi íslenskra landslagsarkitekta, Verkfræðingafélagi Íslands, fulltrúa sveitarfélaga og fulltrúa íbúasamtaka. Tillögur fyrir skipulagsverðlaun þessa árs geta verið eftirfarandi:

1. Svæðisskipulag

2. Aðalskipulag

3. Deiliskipulag

4. Annað (rammaskipulag, stefnumótun, áætlanir, íbúaþing, rannsóknir o.fl.)

Senda skal tillögurnar ásamt fylgigögnum á netfangið skipulagsfraedi (hjá) gmail.com fyrir 29.október næstkomandi.

Frekari upplýsingar hér.