Skipulagsverðlaunin 2008

Laugardaginn 8. nóvember veitti Skipulagsfræðingafélag Íslands, við hátíðlega athöfn í Ráðhúsi Reykjavíkur, Skipulagsverðlaunin 2008.

Að þessu sinni hlaut Stykkishólmsbær  skipulagsverðlaun Skipulagsfræðingafélags Íslands sem voru veitt í samvinnu við Skipulagsstofnun. Í umsögn dómnefndar segir að bærinn fái verðlaunin fyrir stefnu og framfylgd á deiliskipulagi. Þar gildi sú meginstefna að styrkja gamla bæjarkjarnann, þétta byggðina og skilgreina bæjarrými, allt með það að markmiði að bæta við það sem fyrir er fremur en gera gagngerar breytingar.

Með deiliskipulaginu og markvissri framkvæmd þess sé ásýnd bæjarins bætt og hann gerður fallegri með því að sækja viðmið í gömlu Stykkishólmshúsin.
Fram kemur að bæjaryfirvöld í Stykkishólmi hafi sýnt framsýni og skilning á menningarsögulegum og fagurfræðilegum verðmætum á landsvísu. Með þessu séu ekki einungis varðveitt tengsl við söguna, heldur hafi komið í ljós að verndun menningarverðmæta í gömlum bæjarkjörnum hjálpi til við uppbyggingu ferðaþjónustu og auki lífsgæði bæjarbúa. Erla Friðriksdóttir, bæjarstjóri Stykkishólms tók við verðlaununum.
Þá hlaut Hjálmar Sveinsson, útvarpsmaður, viðurkenningu fyrir umfjöllun sína um skipulagsmál í þætti sínum Krossgötum á Rás eitt, Hjörleifur Stefánsson fyrir bókaskrif og Myndlistarskóli Reykjavíkur fyrir menntastarf.

Skipulagsverðlaunin 2008 – lýst eftir tilnefningum

Skipulagsverðlaunin 2008 verða veitt á Alþjóðlega skipulagsdeginum 8. nóvember nk. Það er Skipulagsfræðingafélag Íslands sem veitir verðlaunin í samvinnu við Skipulagsstofnun annað hvert ár. Markmið verðlaunanna er að hvetja til umræðu um skipulagsmál og vekja athygli á því besta sem er að gerast á sviði skipulags á hverjum tíma. Þátttaka er öllum heimil og þurfa tilnefningar að berast fyrir 12. október nk. Lesa meira

Skipulagsverðlaunin 2008

Skipulagsfræðingafélag Íslands hefur sett af stað Skipulagsverðlaunin 2008 en þau eru veitt annað hvert ár til sveitarfélaga, stofnunar eða einkaaðila sem unnið hafa vel á sviði skipulagsmála og lagt sitt fram til að bæta og fegra umhverfi í þéttbýli og dreifbýli.  Markmið verðlaunanna er að hvetja til umræðu um skipulagsmál og vekja athygli á því besta sem er að gerast á sviði skipulags á hverjum tíma.

Tilnefningar ásamt viðeigandi gögnum, s.s. uppdráttum og greinargerð ásamt rökstuðningi fyrir tilnefningu, skal senda til formanns Skipulagsfræðingafélags Íslands á netfangið sigridur@lbhi.is.  Æskilegt er að gögn séu á pdf formi. Þátttaka er öllum heimil og tilnefningar þurfa að berast fyrir 12. október 2008.

Nánari upplýsingar er að finna á vefnum undir Skipulagsverðlaun 2008

Verðlaunin verða veitt á Alþjóðlega skipulagsdeginum 8. nóvember nk. og eru þau veitt í samvinnu við Skipulagsstofnun.

Auglýsing Skipulagsverðlaunanna 2008

Skipulagsverðlaunin 2006

Skipulagsverðlaunin 2006 voru afhent miðvikudaginn 3. maí við hátíðlega athöfn  í Ráðhúsi Reykjavíkur. Skipulagsverðlaunin voru nú veitt í fyrsta skipti og var skipað í dómnefnd til að kveða úr um hver skyldi hljóta skipulagsverðlaunin 2006. Dómnefndina skipuðu; Gestur Ólafssson skipulagsfræðingur og arkitekt, Ómar Ívarsson skipulagsfræðingur og Smári Johnsen skipulagsfræðingur. Lagt var upp með að veita ein verðlaun en ákveðið var að tvær tillögur deildu með sér 1. verðlaunum að þessu sinni. Lesa meira