Akureyri í öndvegi – brautryðjendaverkefni

Tólf fyrirtæki á Akureyri hafa myndað áhugahóp um uppbyggingu miðbæjarins á Akureyri. Hópurinn vinnur nú að nýrri stefnumörkun fyrir miðbæ Akureyrar sem miðar að því að koma Akureyri í öndvegi sem höfuðstað Norðurlands. Í þessu verkefni verður lögð mikil áhersla á að tengja saman skipulagsmál og atvinnumál, með það að markmiði að móta styrka framtíðarsýn um miðbæinn sem getur stutt við atvinnulíf og mannlíf.

Metnaðarfullt verkefni í takt við nýja tíma
Verkefnið er metnaðarfullt og frumkvæði þeirra hagsmunaaðila sem að því standa er í anda nýrra tíma í skipulagsmálum hér á landi. Bæjaryfirvöld á Akureyri hafa lýst yfir fullum stuðningi við verkefnið og munu vinna með áhugahópnum að framgangi þess.

Sérstaða þessa verkefnis
Sérstaða þessa verkefnis felst í mjög virku samráði við íbúa og hagsmunaaðila strax í upphafi skipulagsvinnunnar og sem forsögn í hugmyndasamkeppni. Verkefnið er einnig sérstakt að því leyti að gert er ráð fyrir að mörkuð verði stefna og útbúin aðgerðaáætlun í kjölfar þess, sem á að tryggja framgang þeirra tillagna sem lagðar verða fram.

Framtíðarsýn á réttum forsendum
Haldnir hafa verið víðtækir samráðsfundir með íbúum og hagsmunaaðilum um skipulag miðbæjarins, m.a. var boðið til opins þings laugardaginn 18. september þar sem allir sem áhuga hafa á uppbyggingu miðbæjar Akureyrar voru boðnir velkomnir. Þar fékkst sýn íbúa og hagsmunaaðila á miðbæinn og hvernig þessir aðilar vilja sjá hann þróast. Sá efniviður verður síðan nýttur til að skilgreina forsendur í alþjóðlegri hugmyndasamkeppni sem haldin verður í kjölfarið. Keppnin verður haldin í samráði við Arkitektafélag Íslands. Á grundvelli samráðsfunda og niðurstaðna í hugmyndasamkeppni verður síðan mótuð framtíðarstefna um miðbæinn.

Ráðgjafarfyrirtækið Alta annast samráð við hagsmunaaðila og íbúa en fyrirtækið hefur mikla reynslu á þessu sviði. Fyrir hönd Alta stjórnar Sigurborg Kr. Hannesdóttir samráðsfundum og undirbúningi þeirra, Halldóra Hreggviðsdóttir annast verkstjórn í öðrum verkþáttum og Pétur H. Ármannsson arkitekt veitir ráðgjöf um þá hlið sem snýr að arkitektúr, skipulagi og samkeppni.

Nánari upplýsingar veitir Ragnar Sverrisson:
Tölvupóstur: ragnar@vision-akureyri.is
Vinnusími: 462 3599
Heimasími: 462 1366