Fyrirlestur

“Un-completed works” / “Ófullgerð verk”
Le Corbusier´s Firminy and other projects
Firminy-kirkja Le Corbusiers og fleiri verkefni

José Oubrerie, Arkitekt og prófessor við OSU Knowlton School of Architecture, Columbus, Ohio, Bandaríkjunum heldur fyrirlestur fimmtudag 8. des. kl. 20.00,í stofu 024, Listaháskóla Íslands, Laugarnesi.

José Oubrerie er fæddur í Nantes, Frakklandi. Eftir myndlistarnám í heimabæ sínum nam hann arkitektúr við Ecole National Supérieure des Beaux Arts í París á árunum 1955-58 og 1966-68. Á árunum 1957-65 var hann sem aðstoðarmaður svissnesks-franska arkitektsins Le Corbusiers á vinnustofu hans í París. Þar vann hann m.a. að hönnun kirkjunnar í Firminy, brasilíska stúdentagarðsins í París, spítalans í Feneyjum, verksmiðju Olivetti og ráðstefnumiðstöðvar í Strassbourg.

José Oubrerie á að baki langan feril sem arkitekt og prófessor í arkitektúr vestan hafs og austan. Hann gegnir nú stöðu prófessors við Ohio State University, en hefur áður kennt við University of Kentucky, Columbia University, The Cooper Union, Politecnico di Milano og Ecole National des Beaux Arts í París. Hann hefur hlotið margháttaðar viðurkenningar fyrir verk sín og greinar hans um Le Corbusier og módernismann í arkitektúr hafa birst í virtum fagtímaritum.

Árið 1960, fimm árum eftir vígslu hinnar heimsþekktu kapellu í Ronchamp, tók Le Corbusier að sér að teikna sóknarkirkju í námu- og iðnaðarborginni Firminy í miðhluta Frakklands. Verkefnið var hluti af viðamiklu endurreisnarverkefni sem Eugéne Claudius-Petit, borgarstjóri og góðvinur Le Corbusiers, átti frumkvæði að. Kirkjan var hönnuð á árunum 1961-63 en bygging hennar hófst ekki fyrr en 1970, fimm árum eftir að Le Corbusier lést. Framkvæmdir stöðvuðust fljótlega vegna fjárskorts og stóð byggingin sem hálfbyggð rúst í mörg ár. Fyrir nokkrum árum var loks ákveðið að ljúka við kirkjuna, sem hafði verið friðuð af frönskum yfirvöldum menningarmála þó byggingu hennar væri enn ekki lokið. Var José Oubrerie falið að stýra verkefninu.

Missið ekki af einstæðum fyrirlestri um síðasta stórvirki Le Corbusiers frá þeim manni sem vann að hönnun hennar við hlið meistarans og þekkir forsendur og sögu verkefnisins betur en aðrir. Fyrirlesturinn er á ensku. Aðgangur er ókeypis og öllum heimill á meðan húsrúm leyfir.

Fyrirlestur José Oubrerie er samvinnuverkefni Hönnunar- og arkitektúrdeildar LHÍ og Arkitektafélags Íslands. Franska sendiráði veitti aðstoð við komu Oubrerie.