Grein í Morgunblaðinu

Síðastliðinn sunnudag birtist grein í Morgunblaðinu þar var verið að kynna Skipulagsverðlaunin 2006. Greinina má sjá hér í heild sinni.

Morgunblaðið, sunnudaginn 11. desember, 2005
Skipulagsfræði | Skipulagsverðlaunin veitt í fyrsta sinn
Allt krefst skipulags
Sigríður Kristjánsdóttir er lektor í skipulagsfræði við Landbúnaðarháskóla Íslands. Hún er fædd á Akureyri árið 1967. Hún er stúdent frá Verkmenntaskólanum á Akureyri, með BS í landafræði frá Háskóla Íslands, lauk meistaranámi í skipulagsfræðum frá Univercity of Washington í Seattle og mun skila af sér nú um jólin doktorsverkefni í Bretlandi í skipulagsfræðum með borgarformfræði sem sérsvið.

Íslensku skipulagsverðlaunin verða veitt í fyrsta sinn næsta vor og koma til með að verða árlegur viðburður þaðan í frá. „Markmið verðlaunanna er að hvetja til umræðu um skipulagsmál og vekja athygli bæði almennings og fagaðila á því besta sem er að gerast á sviði skipulags á hverjum tíma,“ segir Sigríður Kristjánsdóttir formaður Skipulagsfræðingafélags Íslands. „Þessi verðlaun eru veitt til sveitarfélaga, stofnunar eða einkaaðila sem unnið hafa vel á sviði skipulagsmála og lagt sitt fram til að bæta og fegra borgarumhverfi og landslag. Um getur verið að ræða frumkvæði, skipulagstillögu eða annað sem er tákn fyrir nýja hugsun og þróar áfram íslenska skipulagshefð. Hefð sem dregur fram landslag, einkenni og sérkenni borga og bæja, er íbúunum og samfélagi þeirra til hagsbóta og tekur mið af sjálfbærri þróun sem nýrri vídd í hinu byggða umhverfi.“ Sigríður segir að skipulagsverðlaunin verði veitt fyrir tillögur eða tilnefningar sem sendar eru inn af sveitarfélögum, stofnunum, fyrirtækjum og einstaklingum. „Samkvæmt lögum er allt landið skipulagsskylt, þannig að þegar á að byggja fjós, sumarbústað, laxeldiskví, virkjun eða hvað annað sem er, þá þarf að vinna sérstakt skipulag fyrir það og taka tillit til allra þátta, allt frá jarðefnum og samfélagsþáttum til veðurfars. Lykill að góðu skipulagi felst í því að taka tillit til og samræma þvergfaglega þætti og skapa þannig öflugt og lifandi umhverfi. Við skipulagsfræðingar leggjum mikla áherslu á að vinna með íbúum þeirra svæða sem er verið að skipuleggja hverju sinni, íbúalýðræði er mjög mikilvægt og það þarf að taka á þeim þáttum sem fólk er ósátt við í nýju skipulagi.“
Tillögur fyrir þessi fyrstu skipulagsverðlaun geta verið eftirfarandi:
1. Svæðisskipulag sem tekur yfir tvö eða fleiri sveitarfélög. Þar er mörkuð stefna í málefnum sem hreyfa við öllum íbúum svæðisins, svo sem um útivistarsvæði, byggðarmynstur; samgöngur og fleira.
2. Aðalskipulag sem tekur á meginþáttum skipulags og nær yfir allt land sveitarfélagsins.
3. Deiliskipulag sem nær til einstakra svæða eða reita í þéttbýli eða dreifbýli. Deiliskipulag tekur fyrir smáatriðin en er innan ramma aðalskipulags.
4. Annað, t.d rammaskipulag, stefnumótun eða áætlanir.
Þátttaka í skipulagsverðlaunum er öllum heimil og tilnefningar þurfa að berast Skipulagsfræðingafélagi Íslands, Pósthólf 298, 121 Reykjavík, fyrir 1. mars 2006.