Viðhorfskönnun

Til félaga í SFFÍ

Í undirbúningi er könnun á viðhorfum fólks til sjónrænna áhrifa hljóðvarna í þéttbýli og viljum við með tölvupósti þessum leita til Skipulagsfræðingafélags Íslands um þátttöku í könnuninni.

Rannsóknin verður sett fram í tveimur hlutum. Í þeim hluta sem að félaginu snýr, verður athyglinni fyrst og fremst beint að viðhorfum umhverfishönnuða og listamanna en í hinum hlutanum verður leitað eftir viðhorfum fólks sem býr í nálægð við slík mannvirki.

Reiknað er með að það muni taka um 10-15 mínútur að fylla könnunina út. Heimild til þátttöku er bundin þeim einstaklingi sem fær þátttökutilkynninguna senda í tölvupósti. Könnunin mun ekki innihalda neinar persónugreinanlegar upplýsingar sem rekja má til þátttakandans og fellur þ.a.l. ekki undir VI. kafla laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, sbr. og 7. gr reglna nr. 698/2004 um tilkynningarskylda og leyfisskylda vinnslu persónuupplýsinga. Það er hinsvegar vinnuregla hjá framkvæmdaraðilum þessarar rannsóknar að virða þau lög sem Persónuvernd starfar eftir og setur um geymslu og meðferð persónuupplýsinga og því mun rannóknin verða tilkynnt til Persónuverndar.

Þýðið sem notað verður til gagnaöflunar verður fengið hjá eftirtöldum fagfélögum að undangengnu samþykki viðkomandi félags: Arkitektafélag Íslands (AÍ), Byggingaverkfræðideild Verkfræðingafélags Íslands (BVFÍ), Félag íslenskra landslagsarkitekta (FÍLA), Samband íslenskra myndlistarmanna (SÍM) og Skipulagsfræðingafélag Íslands (SFFÍ) og verður könnuninni dreift í gegnum tölvupóstlista félaganna.

Rannsóknin er unnin fyrir styrk Vegagerðarinnar og ættu niðurstöður að liggja fyrir fyrri hluta árs 2007. Vonast til að hægt verði að nota niðurstöðurnar til að stuðla að frekari skilningi á mikilvægi fagurfræðilegra gilda við hönnun umferðarmannvirkja.