Aðalfundur SFFÍ

Ágætu félagar,

Nú styttist í aðalfund Skipulagsfræðingafélags Íslands sem boðaður hefur verið fimmtudaginn 26.mars kl.20, sbr. fundarboð dags. 25.2.2009. Auk hefðbundinna aðalfundarstarfa verður fjallað um menntamálin og framtíð félagsins en þessir þættir eru sannarlega mikilvægir í umræðunni um nauðsyn þess að efla veg skipulagsfræðinnar sem fræðigreinar á Íslandi.

Menntanefnd skipulagsfræðingafélagsins hefur verið að störfum undanfarið, en í henni sitja m.a. fulltrúar HÍ, LBHÍ og HR. Meðal þess sem nefndin hefur fjallað um er mótun náms í skipulagsfræði á meistarastigi í háskólunum þremur og mögulegt samstarf þeirra á milli í því sambandi. Á aðalfundinum mun menntanefndin fara yfir stöðuna og fulltrúar háskólanna þriggja segja stuttlega frá því sem er að gerast á vettvangi akademíunnar.
Meðfylgjandi er kynningarefni frá HÍ og HR svo félagsmenn geti glöggvað sig á fyrirliggjandi tillögum að MSc námi og MSc námsleiðum sem þegar eru í boði. (Ekki var hægt að senda kynningarefni frá LBHÍ að svo stöddu en tillögur verða kynntar á aðalfundi.)

Skipulagsfræðingafélag Íslands er lítið félag og fáir hafa hlotið löggildingu starfsheitisins „skipulagsfræðingur“ á Íslandi. Félagar eru nú um 20 talsins og því ljóst að lítið bakland er til staðar til að vinna að nauðsynlegum málefnum, veita aðhald og stuðning í starfinu. Þó ýmislegt gott hafi verið gert, nægir að nefna Skipulagsverðlaunin 2008 í því sambandi, er ljóst að efla þarf starfið til muna, eigi skipulagsfræðingafélagið að eiga sér framtíð.

Samhliða þeirri þróun sem er að eiga sér stað í menntamálunum, viðvarandi þörf á faglegri umræðu og vandaðri vinnubrögðum í skipulagsmálum, blasir nú við tækifæri til að horfa gagnrýnum augum á félagið okkar, starfsemi þess og hvernig það getur orðið virkara afl í skipulagsumræðunni á Íslandi. Þess vegna teljum við í stjórninni að nú sé lag að koma saman og hefja endurreisn og/eða endurnýjun Skipulagsfræðingafélags Íslands. Málefnin sem þarf að taka á eru t.d. hvert er hlutverk félagsins, hverjir geta orðið félagar, hvernig fjölgum við félögum, hvernig gerum við félagið gildandi í umræðunni, osfrv.. Til að vel megi vera þurfum við skipulagsfræðingar að standa saman vörð um fagið okkar með það að leiðarljósi að ná árangri í mótun umhverfisins sem við lifum í.

Í ljósi þessa hvetjum við alla félaga til að mæta á aðalfundinn og stíga skref með okkur í átt að betra, öflugra og virkara Skipulagsfræðingafélagi með gagnrýnum, jákvæðum og uppbyggilegum umræðum fimmtudaginn 26.mars.

Kveðja, Stjórnin