Svæði undir byggð stækkaði um 1059% milli 2000-2006

Lítil frétt birtist á öldum ljósvakamiðlanna um daginn. Þar var fjallað stuttlega um niðurstöður Corine landflokkunarverkefnisins sem Landmælingar Íslands tóku þátt í og voru niðurstöður þess birtar í nóvember 2009. Í stuttu máli fjallar þetta samevrópska verkefni um flokkun lands samkvæmt ákveðnum staðli og markmiðið er að safna sambærilegum umhverfisupplýsingum fyrir öll Evrópuríkin. Margt áhugavert kemur fram í skýrslunni varðandi náttúrufar landsins en hér er rétt að vekja athygli á því er snýr að manngerða umhverfinu. Samkvæmt skýrslunni hafa manngerðu flokkarnir nær eingöngu stækkað og „varð mikil stækkun á þremur stærstu landgerðunum í þessum grunnflokki; gisinni byggð (10%), iðnaðar- og verslunarsvæðum (20%) og íþrótta- og útivistarsvæðum (15%). Langmest breyting varð þó á flokki 133 Byggingarsvæði, eða 22,7 km2 sem er aukning um 1059%. Ástæðan er einkum víðáttumikil byggingarsvæði á höfuðborgarsvæðinu en einnig miklar framkvæmdir tengdar virkjunum og stóriðju.“

Eru þetta nokkuð áhugaverðar niðurstöður fyrir skipulagsfræðinga og aðra þá er koma að skipulagi byggðar.

Skýrslu Landmælinga má nálgast hér.

Einnig má nálgast skýrslu sem gefin er út af evrópsku Umhverfistofnuninni árið 2006 sem nefnist Urban Sprawl in Europe: The Hidden Challenge hér.

Ritari