Tvö námskeið hjá LBHÍ

Skipulagskenningar og aðferðir

Meginatriði í námskeiðinu er gagnrýnin skoðun á þeim kenningum og starfsháttum sem tíðkast við gerð skipulags og framkvæmd þess í nútímanum og þeirri miklu ábyrgð sem höfundar skipulags bera.

Hugmyndafræði, skilgreiningar og hugsanakerfi í skipulagsfræði. Saga og þróun ráðandi hugmynda og samspil þeirra við breytingar á stjórnkerfi, félagslegum, hagrænum og umhverfislegum aðstæðum. Hvernig verkar stjórnkerfi, samfélagslegur bakgrunnur og gildismat á skipulagskenningar. Hverjir eru helstu áhrifavaldar og hagsmunahópar sem ráða ferðinni. Hvaða áhrif hefur þetta á möguleika okkar á að hafa áhrif á umhverfi okkar og á hvaða hátt. Skoðað alþjóðlega og í tengslum við íslenskt samfélag. Íslensk skipulagssaga jafnframt rakin á gagnrýninn hátt.

Fjallað er um helstu ferla í skipulagi. Forsendur í skipulagi; hagrænar, lýðfræðilegar, félagslegar, fagurfræðilegar, lagalegar, tæknilegar, byggðar- og umhverfislegar. Sérstök áhersla lögð á einkenni íslensks umhverfis.Yfirlit yfir mikilvægustu aðferðir sem notaðar eru við öflun gagna og greiningu þeirra við undirbúning skipulagsgerðar. Mat og samanburð í skipulagi. Líkön og spár.

Frekari upplýsingar um námskeiðið má finna hér.

Skipulagslögræði og stjórnsýsluramminn

Farið er yfir laga- og regluverk skipulagsmála á Íslandi. Skoðaðir verða úrskurðir og dómar sem fallið hafa í deilum um skipulagsmál þar sem rýnt er í hvað betur megi fara.
Fjallað er um íslenska réttarkerfið, þrígreint vald, hlutverk og vægi hvers þáttar. Farið er yfir meginreglur stjórnsýsluréttarins, þar sem að skipulag og byggingar- og framkvæmdaleyfi eru stjórnvaldsákvarðanir. Fjallað er um eignarrétt og lögvernd hans. Gerð er grein fyrir eignarnámi og bótum.

Farið er yfir efnisreglur skipulags- og byggingarlaga, mat á umhverfisáhrifum, náttúruvernd og annað þess háttar. Skoðuð eru praktísk dæmi; úrlausnir dómstóla og úrskurðarnefndarinnar og mannréttindadómstóls Evrópu í ágreiningsmálum.
Raunhæf verkefni, úrlausnarefni sem nemendur eiga að kljást við.

Frekari upplýsingar um námskeiðið má finna hér.