Íbúalýðræði og samskiptaskipulag

Fimmtudaginn 24. febrúar síðastliðinn var haldinn hádegisfundur á vegum SFFÍ. Þar opnaði Tinna Haraldsdóttir umræður með framsögu sem bar yfirskriftina Samskipti, völd og skipulag. Framsagan byggði á lokaverkefni hennar frá LBHÍ og fjallaði um íbúalýðræði með tilliti til hugmyndafræði samskiptaskipulags. Vísaði Tinna í ákveðið tilvik sem hún rannsakaði í skipulagsferli vestanverðs Kársnes í Kópavogi þar sem margt hefði betur mátt fara í samráðsferli við íbúa. Ályktaði Tinna meðal annars að nýta mætti hugmyndafræði samskiptaskipulags til að skerpa á samráðsákvæði nýrra skipulagslaga í reglugerð.

Eftir framsöguna spunnust nokkrar umræður um íbúalýðræði og samráðsferlið og kom þar meðal annars fram að nýtt skipulagsferli er að fara í gang á Kársnesinu þar sem dreginn hefur verið lærdómur af fyrra ferli og samráð við íbúa sett í forgrunn vinnunnar.
Eftir umræður settust fundargestir að snæðingi og héldu áfram umræðum yfir súpudiski.

Ritari