Útskrift MS. nema í skipulagsfræði frá LBHÍ

Föstudaginn 3.júní útskrifuðust þrír nemar með MS. gráðu í skipulagsfræði frá Landbúnaðarháskóla Íslands. Hér fyrir neðan eru stuttar lýsingar á lokaverkefnum þeirra ásamt myndum.

Frá vinstri til hægri: Sigríður Kristjánsdóttir, Ólafur Gísli Reynisson, dr. Bjarki Jóhannesson, Bjarki Þórir Valberg, Óskar Örn Gunnarsson og Matthildur Elmarsdóttir. Á myndina vantar Jóhannes S. Kjarval sem var meðleiðbeinandi með verkefni Ólafs.

Bjarki Þórir Valberg: Þættir almenningssvæða greindir í umgerð og hrynjanda – Sniðmengi þátta sem skapa gott almenningssvæði. Hvaða þættir eruð það sem skapa fýsilegt almenningssvæði og hvaða þætti ber að forðast við skipulagsgerð? Einnig er velt upp hvað hægt sé að lagfæra á núverandi svæðum sem ekki þykja góð. Verkefnið byggist á vettvangsrannsókn sem gerð var í þremur borgum í Þýskalandi auk Reykjavíkur.

Ólafur Gísli Reynisson: Gæði götuhliða í miðborg Reykjavíkur. Markmið rannsóknarinnar var að greina götuhliðar í miðborg Reykjavíkur út frá breytum sem búnar voru til út frá atferlisrannsóknum annarra, bæði til þess að sýna húseigendum hvernig nýta megi þessar breytur til að gera betur og borgaryfirvöldum hvernig þau geti aukið áhuga húseigenda á að breyta götuhliðunum.

Aðalleiðbeinandi þeirra Bjarka Þóris og Ólafs Gísla var dr. Bjarki Jóhannesson skipulagsfræðingur og prófdómari var Matthildur Elmarsdóttir skipulagsfræðingur.

Frá vinstri til hægri: Ólafur Arnalds, dr. Hlynur Óskarsson, Drífa Gústafsdóttir, Sigríður Kristjánsdóttir og Gestur Ólafsson

Drífa Gústafsdóttir: Vistvænt skipulag – Friðland fugla -Náttúrufarslegar forsendur skipulagsins. Forsaga verkefnisins er sú að Norræna húsið óskaði eftir samstarfi við Landbúnaðarháskóla Íslands við skipulagningu á fuglafriðlandinu. Stór hópur sérfæðinga hefur unnið að greiningum á svæðinu og miðast verkefnið við að draga saman upplýsingar og greiningar sem hafa verið gerðar í og við fuglafriðlandið og leggja fram skipulagstillögu fyrir svæðið. Verkefnið var samstarfsverkefni Drífu Gústafsdóttur og Sólveigar Helgu Jóhannsdóttur undir handleiðslu dr. Sigríðar Kristjánsdóttur lektors og skipulagsfræðings við LbhÍ og dr. Hlyns Óskarssonar dósents og vistfræðings við LbhÍ. Prófdómari var Gestur Ólafsson skipulagsfræðingur. Verkefnið samanstendur af bók, kynningarspjöldum, líkani og einstaklings ritgerð.“

Frá útskrift Landbúnaðarháskóla Íslands 3.júní 2011. Frá vinstri til hægri: Ólafur Gísli Reynisson, Sigríður Kristjánsdóttir, Drífa Gústafsdóttir, Bjarki Þórir Valberg

Stjórn Skipulagsfræðingafélags Íslands óskar þessum nemendum til hamingju með gráðuna og velfarnaðar í leik og starfi í framtíðinni.