Hádegisfundur á alþjóðlega skipulagsdaginn

Í tilefni af alþjóðlega skipulagsdeginum, 8. nóvember, efndi Skipulagsfræðingafélag Íslands til hádegisfundar um skipulagsmál.

Á fundinum sem haldin var í Þjóðarbókhlöðunni voru flutt tvö erindi.

Annað hét “Veðjað á vöxt”, var flutt af Ásdísi Hlökk Teódórsdóttir og greindi hún þar frá verkefni sem hún og Salvör Jónsdóttir o.fl. hafa unnið að á síðustu misserum.

Í erindinu kom Ásdís inn á mismuninn milli framboðs á íbúðum og fjölgun íbúa. Mannfjöldaspár þær sem sveitarfélögin á áhrifasvæði höfuðborgarinnar byggðu aðalskipulög sín á í árunum fyrir hrun virðast margar hverjar ekki hafa verið í tengslum við raunveruleikann eða mannfjöldaspá Hagstofu. Ásdís tók sérstaklega fyrir sveitarfélögin á útjaðri borgarinnar þar sem nokkuð hefur verið um að stór landsvæði hafi verið skipulögð með áherslu á dreifða byggð, svokallaða búgarðarbyggð, og ræddi um hvaða skipulagsvandamál slík byggð hefur í för með sér. Gaman verður að rýna í verkefnisskýrsluna sem kemur út í kringum áramót.

Hitt erindið hét “Skipulagsmistök á höfuðborgarsvæðinu-Niðurstöður viðhorfskönnunar” og var flutt af Agli Þórarinssyni meistaranema í skipulagsfræðum við Landbúnaðarháskóla Íslands.

Egill fór í sínu erindi yfir könnun sem hann gerði í vor varðandi skipulagsslys/framkvæmdir. Þar ræddi hann um að deila megi um hvort hugtakið ”skipulagsslys” eigi rétt á sér vegna þess að  slys  gera ekki boð á undan sér en það gera skipulagsáætlanir. Vonandi heldur Egill áfram með þetta verkefnið því það velti upp hugmyndum um ábyrgð, siðferði, völd, hagsmuni og lýðræði í skipulagi.

Fundurinn var vel sóttur, um 60 manns mættu og spunnust áhugaverðar umræður um bæði erindin.

Ritari