Snúast samgöngur aðeins um kostnað?

Málþing 22.mars í Rúgbrauðsgerðinni (mynd GPM)

Skipulagsfræðingafélag Íslands í samstarfi við innanríkisráðuneyti og Vegagerðina hélt málþing fimmtudaginn 22.mars sem bar yfirskriftina Snúast samgöngur aðeins um kostnað?  Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra setti málþingið og flutti ávarp.

Tilgangur málþingsins var að fjalla um samspil skipulags og áhrif þess á samgöngukerfið og raunar allt samfélagið, svo sem byggðaþróun, borgarmynstur búsetu, umhverfismál og fleira. Sérfræðingar á sviði skipulags, arkitektúrs, fjármála og samgöngumála fjölluðu um þá ólíku þætti sem liggja til grundvallar þegar skipulag og samgöngur eru annars vegar.

Bjarki Jóhannesson, formaður Skipulagsfræðingafélags Íslands, flutti inngangserindi og fjallaði um hvort samgöngur snerust aðeins um kostnað. Ræddi hann almennt um samfélagsleg áhrif samgangna í þéttbýli. Þar á meðal um heilsufar og hvernig hávaði getur valdið líkamlegum sjúkdómum. Einnig fjallaði hann um hagræn áhrif samgangna í þéttbýli þar sem bíllinn væri í aðalhlutverki og hvernig gott gatnakerfi hafi beina efnahagslega þýðingu fyrir flutninga heim að dyrum en væri ekki endilega hentugast eða hagkvæmast til að flytja fólk. Einnig kom hann inn á hvernig samgöngubætur hafa ýmist jákvæð eða neikvæð áhrif.

Vistvænar samgöngur og áhrifaþættir í borgarskipulagi nefndist erindi Þorsteins R. Hermannssonar, samgönguverkfræðings í innanríkisráðuneytinu og fjallaði Þorsteinn þar m.a. um tillögu að nýrri samgönguáætlun sem leggur áherslu á vistvænari tegundir samgangna en einkabílinn. Einnig fjallaði hann um ferðamátaval, vistvænt skipulag, áhrif þéttleika byggðar á ferðamáta og bílastæði.

2+1 vegir og áhrif þeirra á búsetu og byggðarmynstur var umfjöllunarefni Sverris Örvars Sverrissonar, verkefnastjóra hjá Vegagerðinni. Þar fjallaði Sverrir almennt um 2+1 vegi í dreifbýli og áhrif þeirra á búsetu og byggðarmynstur.

Hrafnhildur Brynjólfsdóttir, verkfræðingur hjá Verkís ræddi um hjáleiðir um þéttbýli. Byggði Hrafnhildur fyrirlestur sinn á M.sc. verkefni sínu frá Háskólanum í Reykjavík sem fjallaði um áhrif skipulagðrar hjáleiðar norðan við Selfoss á landnotkun og samfélag.

Næst á dagskrá var erindi um samgöngur og borgarbrag sem Páll Gunnlaugsson, arkitekt FAÍ hjá ASK arkitektum flutti. Þar fjallaði Páll um hvernig ofuráhersla síðustu áratuga á stærri og betri umferðarmannvirki hafa leitt til einsleitari og verri borgarbrags. Nefndi Páll m.a. dæmi um gott skipulag og hönnun þar sem dregið væri úr vægi umferðarmannvirkisins og reynt að skapa betra umhverfi fyrir aðra samgöngumáta.

Ragnar Frank Kristjánsson, landslagsarkitekt FÍLA og lektor við Landbúnaðarháskóla Íslands flutti því næst erindi um upplifun og fagurfræði í samgöngukerfum. Þar ræddi Ragnar m.a. um mikilvægi þess að hafa það í huga að oft er leiðin markmiðið. Fallegir og vel hannaðir vegir í sátt við umhverfið geta aukið við upplifun vegfarandans. Einnig lagði Ragnar áherslu á að útbúið yrði rit um sjónræna aðlögun vega að íslensku landslagi.

Lúðvík Elíasson, hagfræðingur og kennari við Landbúnaðarháskóla Íslands, ræddi kostnað við samgöngur í þéttbýli. Þar fjallaði Lúðvík m.a. um einkakostnað og kostnað sem fellur á alla vegna samgangna,  samanburð ferðamáta út frá hagfræðilegu sjónarmiði, hvernig má minnka umferðarteppum og hvað skipulag skiptir miklu máli þegar litið er til ferðamátavals einstaklinga.

Guðmundur Freyr Úlfarsson, prófessor og varadeildarforseti Háskóla Íslands, fjallaði um aðgengi og athafnir sem lykilþætti skipulags byggða og samgangna.Þar reifaði hann m.a. hvernig dreifð byggð leiðir af sér slæmt aðgengi, vaxtarbólu vegna samkeppni sveitarfélaga um fjölgun íbúa og hvernig má mæta þörf fyrir vöxt byggðar sem jafnframt tekur tillit til aðgengis.

Að síðustu flutti Hrafnkell Á. Proppé, skipulagsfræðingur hjá Alta, erindi sem hann nefndi sjálfbærar samgöngur – í bið eða bráð? Það fjallaði Hrafnkell um framtíð sjálfbærra samgangna á Íslandi, ljón í veginum á þeirri vegferð og nefndi dæmi frá Noregi varðandi breytingu vega úr þjóðvegum í götur.

Innanríkisráðherra dró saman umfjöllunarefnið í lok erinda og að því loknu fóru fram fjörugar umræður.

Stjórn SFFÍ vill þakka öllum sem tóku þátt og á hlýddu fyrir vel heppnað og mjög áhugvert málþing sem líkt og kom fram í máli margra fyrirlesara markar vonandi upphafið að hugarfarsbreytingu í umfjöllun um kostnað vegna samgangna og samspil skipulags og samgangna.

Ritari