Tillögur að lagabreytingum

Stjórn Skipulagsfræðingafélags Íslands minnir á aðalfund félagsins fimmtudaginn 29. mars nk. kl. 19:30. Fundurinn verður á veitingahúsinu Horninu (kjallara) Hafnarstræti 15.

Dagskrá:

1. Skýrsla stjórnar
2. Uppgjör reikninga
3. Tillögur að lagabreytingum
4. Inntaka nýrra félaga
5. Kosning í stjórn og nefndir
6. Kosning endurskoðenda
7. Upphæð árgjalda ákveðin
8. Önnur mál
– umræður um starfsemi félagsins í náinni framtíð.

Fram eru komnar nokkrar tillögur að lagabreytingum. Lagt er til að lögin taki eftirfarandi breytingum:

 

2. grein.
Markmið félagsins er:

 

Að vinna að framgangi skipulagsfræðinnar sem sjálfstæðrar fræðigreinar hérlendis, t.d. með kynningar- og fræðslustarfsemi. Að stuðla að faglegum vinnubrögðum á sviði skipulags. Að gæta hagsmuna félagsmanna, svo sem við starfsráðningar, úthlutun útseldra verkefna, forval í samkeppnir o.fl. á sviði skipulags.

 

verði að

Markmið félagsins er:

Að vinna að framgangi skipulagsfræðinnar sem sjálfstæðrar fræðigreinar hérlendis, t.d. með kynningar- og fræðslustarfsemi. Að stuðla að faglegum vinnubrögðum á sviði skipulags. Að gæta hagsmuna félagsmanna.

 

3. grein.
Starfsheitið skipulagsfræðingur er lögverndað. Reglur um nám sem leiðir til fullnaðarmenntunar í skipulagsfræðum eru staðfestar af iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu. Félagið veitir umsagnir um umsóknir um heimild til að nota starfsheitið skipulagsfræðingur, eftir beiðni iðnaðarráðuneytisins. Nám sem viðurkennt er af viðkomandi félagi skipulagsfræðinga í því landi sem námið er stundað skal einnig viðurkennt hérlendis, svo og nám sem stundað er hérlendis sem uppfyllir skilyrði sem samþykkt hafa verið af félaginu og er undir umsjón löggilts skipulagsfræðings við viðkomandi háskóladeild. A.m.k. hluti námsins skal einnig kenndur af löggiltum skipulagsfræðingi. Þeir sem fengið hafa heimild iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis til að nota starfsheitið skipulagsfræðingur geta kennt sig við félagið með skammstöfuninni FSFFÍ.

 

verði að

 Starfsheitið skipulagsfræðingur er lögverndað. Reglur um nám sem leiðir til fullnaðarmenntunar í skipulagsfræðum eru staðfestar af iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu. Félagið veitir umsagnir um umsóknir um heimild til að nota starfsheitið skipulagsfræðingur, eftir beiðni iðnaðarráðuneytisins. Nám sem veitir full starfsréttindi og viðurkennt er af félagi skipulagsfræðinga í því landi sem námið var stundað skal einnig viðurkennt hérlendis. Ef engin samtök skipulagsfræðinga eru til í því landi sem námi var lokið metur stjórn SFFÍ nám við viðkomandi háskóla. Umsækjandi skal leggja fram gögn frá viðkomandi skóla t.d. prófskírteini eða aðra óyggjandi staðfestingu á að prófgráðu hafi verið lokið. Þeir sem fengið hafa heimild iðnaðarráðuneytis til að nota starfsheitið skipulagsfræðingur geta kennt sig við félagið með skammstöfuninni FSFFÍ.

 5. grein.
Aðalfundur fer með æðsta valdi í félaginu, en stjórn þess starfar í umboði hans. Aðalfund skal halda í febrúar- eða marsmánuði ár hvert. Til aðalfundar skal boðað bréflega með minnst 10 daga fyrirvara. Aðalfundur er löglegur sé þannig til hans boðað eða ef fundurinn samþykkir afbrigði þar að lútandi. Á aðalfundi skal flutt skýrsla stjórnar um félagsstarfið, endurskoðaðir reikningar lagðir fram til afgreiðslu, ræddar tillögur um lagabreytingar, kosnir stjórnarmenn og endurskoðendur, ákveðin upphæð árgjalda og rædd önnur mál.

Aukaaðalfund skal halda ef meirihluti félagsmanna óskar þess. Til hans skal boða á sama hátt og aðalfundar.

verði að

Aðalfundur fer með æðsta vald í félaginu, en stjórn þess starfar í umboði hans. Aðalfund skal halda í febrúar- eða marsmánuði ár hvert. Til aðalfundar skal boðað með minnst 10 daga fyrirvara. Aðalfundur er löglegur sé þannig til hans boðað eða ef fundurinn samþykkir afbrigði þar að lútandi. Á aðalfundi skal flutt skýrsla stjórnar um félagsstarfið, endurskoðaðir reikningar lagðir fram til afgreiðslu, ræddar tillögur um lagabreytingar, kosnir stjórnarmenn og endurskoðendur, ákveðin upphæð árgjalda og rædd önnur mál. Halda skal fundargerð á aðalfundi. Tillögur um lagabreytingar þurfa að berast 5 dögum fyrir aðalfund og skulu þær birtar á heimasíðu félagsins og sendar félagsmönnum degi síðar.

Aukaaðalfund skal halda ef meirihluti félagsmanna óskar þess. Til hans skal boða á sama hátt og aðalfundar.

6.grein
Stjórn félagsins skal skipuð þremur mönnum, formanni, ritara og gjaldkera og einum til vara, og skal hún kosin á aðalfundi til eins árs í senn. Formaður félagsins skal kosinn á aðalfundi úr hópi stjórnarinnar, en stjórnin skiptir sjálf með sér verkum að öðru leyti á fyrsta fundi eftir aðalfund. Ritari  gegnir  hlutverki varaformanns. Við stjórnarkjör skal tryggt að a.m.k. einn úr fráfarandi stjórn sitji áfram og a.m.k. tveir aðalmenn í stjórninni skulu hafa hlotið löggildingu starfsheitisins skipulagsfræðingur.  Kosning skal vera leynileg ef þess er óskað.

Stjórnin fer með æðsta vald félagsins milli aðalfunda, sinnir rekstri og gætir hagsmuna félagsheildarinnar. Stjórnin skal halda félagatal og fjalla um umsóknir nýrra félaga. Stjórninni er heimilt að skipa nefndir til að sinna tilteknum málefnum félagsins í umboði stjórnar. Við skipun nefnda skal hlutverk þeirra skilgreint og valdsvið gagnvart stjórn.

Stjórnarfund skal halda eigi sjaldnar en annan hvern mánuð. Skylt er að boða stjórnarfund ef tveir menn úr stjórn óska þess. Stjórnarfundur er ályktunarfær ef þrír stjórnarmenn sækja fundinn. Halda skal gerðarbók á stjórnarfundum.

verði að

Stjórn félagsins skal skipuð formanni, ritara og gjaldkera auk eins varamanns. Skal hún kosin á aðalfundi til eins árs í senn. Formaður félagsins skal kosinn á aðalfundi úr hópi stjórnarinnar, en stjórnin skiptir sjálf með sér verkum að öðru leyti á fyrsta fundi eftir aðalfund. Ritari  gegnir  hlutverki varaformanns. Við stjórnarkjör skal tryggt að a.m.k. einn úr fráfarandi stjórn sitji áfram og a.m.k. tveir aðalmenn í stjórninni skulu hafa hlotið löggildingu starfsheitisins skipulagsfræðingur.  Kosning skal vera leynileg ef þess er óskað.

Stjórnin fer með æðsta vald félagsins milli aðalfunda, sinnir rekstri og gætir hagsmuna félagsheildarinnar. Stjórnin skal halda félagatal og fjalla um umsóknir nýrra félaga. Stjórninni er heimilt að skipa nefndir til að sinna tilteknum málefnum félagsins í umboði stjórnar. Við skipun nefnda skal hlutverk þeirra skilgreint og valdsvið gagnvart stjórn.

Stjórnarfund skal halda eigi sjaldnar en annan hvern mánuð. Skylt er að boða stjórnarfund ef tveir menn úr stjórn óska þess. Stjórnarfundur er ályktunarfær ef þrír stjórnarmenn sækja fundinn. Halda skal fundargerðir á stjórnarfundum.

 8.grein.
Árgjald skal ákveða á aðalfundi. Námsmenn með aukaaðild að félaginu skulu greiða fjórðung árgjalds.  Heiðursfélagar eru undanþegnir árgjaldi. Gjalddagi er 1. mars. Atkvæðisrétt á fundum eiga þeir félagsmenn sem skuldlausir eru við félagið.

 

verði að

 

Árgjald skal ákveða á aðalfundi. Námsmenn með aukaaðild að félaginu skulu greiða fjórðung árgjalds.  Heiðursfélagar eru undanþegnir árgjaldi. Gjalddagi er 1. mars. Atkvæðisrétt á fundum eiga þeir félagsmenn sem skuldlausir eru við félagið. Jafnframt geta aðeins þeir sem skuldlausir eru við félagið setið í stjórnum og nefndum á vegum félagsins.

 

 

Stjórn vill minna á eftirfarandi lagagreinar fyrir aðalfundinn:

8.grein.
Árgjald skal ákveða á aðalfundi. Námsmenn með aukaaðild að félaginu skulu greiða fjórðung árgjalds.  Heiðursfélagar eru undanþegnir árgjaldi. Gjalddagi er 1. mars. Atkvæðisrétt á fundum eiga þeir félagsmenn sem skuldlausir eru við félagið.

 

10 grein.
Til að breyta lögum þessum þarf samþykki tveggja þriðju hluta atkvæðisbærra félagsmanna á löglega boðuðum aðalfundi, sbr. 5.grein.

 

Viljum við hvetja sem flesta til að mæta á aðalfundinn þar sem um nokkuð viðamiklar tillögur að lagabreytingum er um að ræða og því mikilvægt að sem flestir félagsmenn séu til skrafs og ráðagerða um þær.

f.h. stjórnar SFFÍ

Sverrir Ö. Sverrisson

Ritari