Málþing um skipulag landnotkunar – samantekt

Miðvikudaginn 7. nóvember hélt Skipulagsfræðingfélag Íslands og Landbúnaðarháskóli Íslands opið málþing í Norræna húsinu um skipulag landnotkunar og landnýtingar á Íslandi. Á málþinginu voru þessi mál rædd með sérstöku tilliti til nýrrar Landsskipulagsstefnu.

Ágrip erinda má finna hér.

 

Þökkum við Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu og Vegagerðinni fyrir veittan stuðning til þess að gera málþingið að veruleika.

Í setningarávarpi formanns félagsins kom fram að samræming landnotkunar á landsvísu hafi verið á hendi sveitarfélaganna um nokkurt skeið með misjöfnum árangri. Því séu vissar væntingar bundnar við nýja landsskipulagsstefnu um að náist betri samhæfing milli sveitarfélaga og einnig milli sveitarfélag og ríkis. Þó vakna spurningar varðandi ýmsa þætti sem breytt vinnubrögð í skipulagskerfinu hafa í för með sér.

Svandís Svavarsdóttir umhverfis- og auðlindaráðherra hélt opnunarávarp þar sem hún kom inn á mikilvægi þess að landnotkun sé samræmd. Ráðherra ræddi sérstaklega þann nýja vettvang sem Landsskipulagsstefnan mótar til þess að leiða saman þá aðila sem að landnotkun koma og mikilvægi þess að sátt náist um þennan grundvöll.

Hanna Lára Pálsdóttir, frá ráðuneyti Skipulagsmála í Hollandi, fjallaði um sögu landsskipulags í Hollandi og mikilvægi þess að slíkt skipulag sé unnið á sem breiðustum vettvangi, þverfaglega og með aðkomu sem flestra sem koma að landnotkun. Hollensk yfirvöld hafa farið í gegnum 6 landsskipulagsferli og öll skipulögin, nema það seinasta,  hafa verið unnin á löngum tíma. Hanna Lára sýndi einnig hvernig hollensk yfirvöld eru að fara í gang með tilraunaverkefni í skipulagsmálum sem miðar að því að færa skipulag nær íbúum. Verkefnið er fólgið í því að íbúar stjórni nánast alfarið sínum skipulagsmálum og sjái um alla innviði.

Stefán Thors, forstjóri Skipulagsstofnunar, steig því næst í pontu og ræddi um tilgang og tilurð nýrrar Landsskipulagsstefnu. Þar fór hann yfir hvernig umhverfis- og auðlindaráðherra lagði línurnar sem Skipulagsstofnun var ætlað að vinna eftir við gerð stefnunar og þau helstu forsenduskjöl sem stefnan byggir á. Í máli Stefáns kom fram stofnunin fékk nauman tíma til verksins og var því sjónum beint að þremur áherslusviðum: Skipulagsmálum á miðhálendi Íslands, búsetumynstri og dreifingu byggðar og skipulagi á haf- og strandsvæðum.

Glærur frá erindi Stefáns

Sigríður Kristjánsdóttir, námbrautarstjóri MS náms í Skipulagsfræði hjá Landbúnaðarháskólanum, ræddi um skipulag byggðar. Hún byrjaði á því að tala um þá möguleika sem faldir eru í nýrri landsskipulagsstefnu með tilliti til skipulags landnotkunar. Benti hún þó á að slík stefna þyrfti, þegar hún er fullbúin, að byggja á miklum rannsóknum og að þannig væri hægt að færa sterkari rök fyrir því sem fram kemur í stefnunni.

Glærur frá erindi Sigríðar

Pétur Ingi Haraldsson, skipulagsfulltrúi Árnessýslu og Flóahrepps, flutti erindi um landnýtingu í dreifbýli. Þar fjallaði hann almennt um landnotkun á sínu svæði og ræddi síðan um þau áhrif sem tillaga að Landsskipulagsstefnu gæti haft á þá landnotkun ef henni verður ekki breytt.

Glærur frá erindi Péturs

Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, ræddi um möguleg áhrif Landsskipulagsstefnunnar á skipulagvald sveitarfélaganna og samspil aðal- og svæðisskipulagsáætlana sveitarfélaganna við stefnuna.

Eiríkur Bjarnason, forstöðumaður Umhverfis- og áætlanadeildar Vegagerðarinnar, hélt erindi um skipulag miðhálendisins með tilliti til vega, virkjana og háspennulína. Eiríkur benti m.a. í erindi sínu á að sterk náttúruverndarsjónarmið sem finna má í tillögunni væru til þess fallin að stöðva allar framkvæmdir á hálendinu.

Glærur frá erindi Eiríks

Jónatan Hermannasson og Brynja Guðmundsdóttir, frá Landbúnaðarháskólanum ræddu um landnotkun landbúnaðar. Í erindi sínu lagði Jónatan þunga áherslu á að ræktanlegt land væri mjög verðmæt auðlind sem alls ekki mætti skerða. Bryndís ræddi um aðferðir sem beita má til þess að greina hvaða land er í raun fallið til ræktunar.

Glærur frá erindi Jónatans og Brynju

Trausti Valsson, prófessor við Háskóla Íslands, flutti lokaerindi dagsins og fjallaði í því um mikilvægi rannsókna í skipulagsmálum þegar kemur að svo viðamiklu og mikilvægu plaggi eins og Landsskipulagsstefna gæti orðið. Eins benti Trausti á að framlagning Umhverfis- og auðlindaráðherra á áherslum raskaði jafnvægi tillögunnar, þ.e. meiri áhersla væri á náttúrvernd en aðra þætti.

Að erindum loknum tók við líflega pallborðsumræða þar sem tókst að kafa aðeins dýpra í málefnið. Engu að síður er ljóst að umræðu um þessi mál er hvergi nærri lokið og munu málefnin landnotkun og landnýting verða ofarlega á borði þennan veturinn.

Þakkar félagið framsögumönnum og öðrum sem að málþinginu stóðu.