Andi Snæfellsness hlaut Skipulagsverðlaunin 2014

Svæðisskipulag Snæfellsness 2014 – 2026,  Andi Snæfellsness – auðlind til sóknar, hlaut Skipulagsverðlaunin 2014 sem afhend voru í gær af Skipulagsfræðingafélagi Íslands í Ráðhúsi Reykjavíkur.

Svæðisskipulag Snæfellsness 2014 – 2026 var unnið af ráðgjafarfyrirtækinu Alta ehf og standa sveitarfélögin fimm á Snæfellsnesi að skipulaginu, en þau eru Snæfellsbær, Stykkishólmur, Grundarfjarðarbær, Eyja- og Miklaholtshreppur og Helgafellssveit.

Skipulagsverðlaunin 2014

Verðlaunahafar ásamt Hjálmari Sveinssyni og Erlu Margréti Gunnarsdóttur við afhendingu verðlaunanna.

Mótun svæðisskipulagsins hefur verið í nánu samstarfi við samtök í atvinnulífinu og íbúa á Snæfellsnesi sem standa með sveitarfélögunum að verkefni um stofnun svæðisgarðs á Snæfellsnesi. Að mati dómnefndar var svæðisskipulagið afar vel unnið, mun nýtast vel til aðalskipulagsgerðar fyrir sveitarfélögin á svæðinu og er góð fyrirmynd fyrir önnur sveitarfélög. Vel er að staðið að greiningum á svæðinu sem og aðgerðaráætlun til framtíðar. Byggðaþróun er byggð á náttúru- og menningarauði og er skipulagið til hagsbóta fyrir íbúa, ferðamenn og umhverfið.

Í umsögn dómnefndar um vinningstillöguna kom meðal annars fram:

„Svæðisskipulagið fellur vel að áherslu verðlaunaveitingarinnar í ár sem er á skipulagsgerð í tengslum við ferðaþjónustu og samþættingu hennar við náttúru og byggt umhverfi.“

„Svæðisskipulag Snæfellsness er langtíma stefnumarkandi skipulagsáætlun um eflingu samfélagsins á Snæfellsnesi á grunni staðaranda og auðlinda svæðisins.“

 

Nemendaverðlaunin hlaut Íris Stefánsdóttir fyrir mastersritgerð sína í Skipulagsfræðum við Landbúnaðarháskóla Íslands „Ferðavenjur skólabarna í Reykjavík – Áhrif hins byggða umhverfis á val ferðamáta“. Var dómnefnd sammála um að hér væri á ferðinni áhugavert grasrótarverkefni. Það er samfélagslega mikilvægt að hafa áhrif á lífstíl og það að ganga í skóla er og verði virkur ferðamáti. Vill dómnefnd hvetja sveitafélög til að huga að ferðavenjum barna við skipulagsgerð.

 

Dómnefnd Skipulagsverðlaunanna 2014 var skipuð af:

  • Erla Margrét Gunnarsdóttir, formaður, tilnefnd af
    Skipulagsfræðingafélagi Íslands,
  • Bergljót S. Einarsdóttir tilnefnd af Arkitektafélagi Íslands,
  • Björn Jóhannsson tilnefndur af Ferðamálastofu,
  • Gísli Gíslason tilnefndur af Félagi Íslenskra landslagsarkitekta,
  • Hjálmar Sveinsson tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitafélaga og
  • Þórarinn Hjaltason tilnefndur af Verkfræðingafélagi Íslands.

 

Allar tillögurnar sem bárust voru til sýnis á verðlaunaafhendingunni í Ráðhúsinu og sköpuðust góðar umræður um mikilvægi samþættingu skipulagsgerðar við náttúruna, byggt umhverfi sem og þátt ört vaxandi ferðaþjónustu í skipulagi.

 

Nánari upplýsingar um tilnefningar og umsögn dómnefndar í heild sinni má finna hér.

Nánari upplýsingar um Svæðisskipulag Snæfellsness má finna í heild sinni á heimasíðu Svæðisgarðs Snæfellsness:
http://svaedisgardur.is/frettir/103-svaedhisskipulag-snaefellsness-2014-2026

Skipulagsverdlaunin2014_Snaefellsnes_svsk.tillaga-1