Borgir og borgarskipulag eftir Bjarna Reynarsson skipulagsfræðing

Út er komin bókin Borgir og borgarskipulag eftir Bjarna Reynarsson. Um er að ræða aðgengilegt fræðirit sem mikill fengur er í fyrir alla sem áhuga hafa á sögu borga og skipulagi. Hér bætir Bjarni Reynarsson úr brýnni þörf með yfirlitsriti þar sem raktar eru hugmyndir um borgarskipulag frá upphafi vega.

 

Borgir og borgarskipulag

Borgir og borgarskipulag

Sérstaklega er fjallað um þær tvær borgir sem kalla hefur mátt höfuðborgir Íslands, Kaupmannahöfn og Reykjavík. Í kynningu á verkinu hjá Skruddu segir:

„Borgir hafa verið til í árþúsundir en Reykjavík aðeins í rúm 100 ár. Íslensk menning er að stofni til dreifbýlismenning en borgarmenning barst fyrst hingað til lands frá Kaupmannahöfn á seinni hluta 19. aldar. Í bókinni er fjallað um sögulega þróun og skipulag borga og það sett í samhengi við skipulagssögu Reykjavíkur.

Bókinni er skipt í þrjá meginþætti. Í fyrsta lagi, upphaf og sögulega þróun vestrænna borga. Í öðru lagi, þróun og skipulag Kaupmannahafnar sem var höfuðborg Íslands í hartnær fimm aldir og í þriðja lagi, þróun og skipulag Reykjavíkur og höfuðborgarsvæðisins.

Hér er á ferðinni fyrsta yfirlitsrit á íslensku um þróun borga frá örófi alda til okkar tíma. Bókin er aðgengileg öllum þeim sem áhuga hafa á skipulagi borga og menningarsögu almennt. Um 500 myndir, kort og skýringarmyndir prýða bókina.“

Smellið hér til að skoða/kaupa bókina hjá útgefanda