Vogabyggð hlýtur Skipulagsverðlaunin 2016

Vogabyggð – svæði 2 hlaut Skipulagsverðlaunin 2016 sem afhend voru þann 14. febrúar 2017 í Hannesarholti. Deiliskipulagið er unnin af Teiknistofunni Tröð, Jaakko van’t Spijker (Hollandi) og Felixx (Hollandi).


Deiliskipulagið er nær yfir iðnaðarsvæði í Vogahverfi, Reykjavík, sem á að umbreytta í íbúðar- og þjónustusvæði. Að mati dómnefndar er tillagan góð lausn sem setur fram spennandi og nútímalega borgarsýn en leysir einnig vel úr töluverðu flækjustigi. Þétt fjölbreytt byggð þar sem gert er ráð fyrir öllum ferðamátum og almenningssvæðum er gert hátt undir höfði. Gott samspil er á milli núverandi mannvirkja á svæðinu og nýrrar byggðar. Vel er hugað að staðaranda og náttúru auk þess að nærumhverfi Elliðaánna er nálgast á varfærinn en skapandi hátt.

Gunnar formaður SFFÍ afhenti Sigríði Magnúsdóttur og Hans-Olav Andersen verðlaunin.

 


Sérstök heiðursverðlaun voru veitt eftir tillögu dómnefndar. Þau hlaut dr. Trausti Valsson fyrir framlag sitt til skipulagsmála á Íslandi í gegnum árin.

Formaður SFFÍ afhendir dr. Trausta Valssyni heiðursverðlaun félagsins.

Trausti var með fyrstu Íslendingum til að ljúka námi og dr. prófi í skipulagsfræði auk þess að gegna fyrstur manna stöðu prófessors í fræðunum við íslenskan háskóla. Hann hefur vakið athygli á skipulagsmálum með frumlegum, framsýnum og ögrandi hugmyndum sem hafa ýtt undir frekari umræðu um skipulagsmál á Íslandi. Sjá nánar um Trausta á heima síðu hans hér: https://notendur.hi.is/~tv/


Þá voru veitt verðlaun til nemendaverkefna en þau hlaut MS ritgerðin Mat á gæðum aðalskipulagsáætlana – Notagildi gátlista við aðalskipulagsgerð eftir Myrru Ösp Gísladóttur. Ritgerðin fjallar um notkun gátlista við aðalskipulagsgerð í þeim tilgangi að bæta gæði þeirra. Dómnefnd taldi viðfangsefni ritgerðarinnar athyglisvert sem getur nýst vel við skipulagsgerð og gott innlegg í umræðuna um bætt verklag við gerð aðalskipulagsáætlana.

Formaður SFFÍ afhendir Myrru Ösp nemendaverðlaun.

Hér má nálgast ritgerðina á Skemmunni: http://hdl.handle.net/1946/23145


Dómnefnd Skipulagsverðlaunanna 2016 var skipuð af:

  • Erla Bryndís Kristjánsdóttir tilnefnd af FÍLA
  • Guðrún Guðmundstóttir tilnefnd af SFFÍ
  • Gunnar Ágústsson formaður SFFÍ
  • Páll Hjaltason tilnefndur af AÍ
  • Þórarinn Hjaltason tilnefndur af VFÍ

Nánari upplýsingar um tilnefningar og umsögn dómnefndar í heild sinni má finna hér.