Skipulagsfræðingafélag Íslands (SFFÍ)

Félagið var stofnað þann 17. júní 1985. Helstu markmið þess eru að vinna að viðurkenningu skipulagsfræðinnar sem sjálfstæðrar fræðigreinar hér á landi, að stuðla að faglegum vinnubrögðum við gerð skipulags og málefnalegri umræðu um skipulags- og umhverfismál.  Starfsheitið skipulagsfræðingur er lögverndað samkvæmt lögum nr.8/1996 og segir m.a. í 2. gr. laganna „Rétt til að nota starfsheiti þau sem lög þessi taka til eða orð sem fela í sér þau heiti hafa þeir menn einir sem fengið hafa til þess leyfi ráðherra…“ [Lög nr 8/1996].

Hverjir eru í félaginu?
Félagsmenn eru nú vel á fimmta tug og eiga það sammerkt að hafa stundað nám í skipulagsfræði við innlenda og erlenda háskóla og unnið við skipulagsmál hér á landi.  Skipulagsfræðingar hér á landi hafa í gegnum tíðina einkum sótt menntun sína til Norðurlandanna, Bretlands, Þýskalands, Bandaríkjanna og Kanada en árið 2011 voru tvær framhaldsnámsbrautir vottaðar af félaginu hér á landi sem fullgilt nám í skipulagsfræði. Í dag er aðeins önnur þeirra enn í boði.

Hvar starfa skipulagsfræðingar?
Íslenskir skipulagsfræðingar starfa á ríkisstofnunum við stjórnunarstörf, rannsóknir og eftirlit, hjá skipulagsskrifstofum sveitarfélaga og í auknum mæli sem sjálfstæðir ráðgjafar við gerð svæðis-, aðal- og deiliskipulags.

Starfsheitið skipulagsfræðingur
Til að mega nota starfsheitið skipulagsfræðingur þarf viðkomandi að hafa lokið a.m.k. fjögurra ára námi í skipulagsfræði á háskólastigi auk tveggja ára starfsreynslu af skipulagsmálum eða tveggja ára framhaldsnámi. Ennfremur skal námið vera viðurkennt sem fullgilt embættispróf í skipulagsfræðum í því landi þar sem viðkomandi lauk prófi.

Listi ráðuneytis yfir löggilta skipulagsfræðinga.

Hvað er skipulagsfræði?
Skipulagsfræði vann sér sess sem sjálfstæð fræðigrein á fyrri hluta 20. aldar. Skipulagsfræði er þverfagleg grein sem m.a. fæst við gerð áætlana um notkun lands og byggðarþróun.  Markmið hennar er að tryggja að slíkar áætlanir séu byggðar á breiðum vísindalegum grunni og að með þeim séu samræmd hin fjölmörgu sjónarmið fólks um notkun lands og nýtingu auðlinda.

Menntun skipulagsfræðinga
Menntun skipulagsfræðinga er víðtæk og nær til ólíkra greina eins og vistfræði, lögfræði, hagfræði, félagsfræði, verkfræði og byggingarlistar.  Sérhæfing skipulagsfræðinga felst m.a. í því að samhæfa niðurstöður sérfræðinga og samræma ólík sjónarmið hagsmunaaðila þegar ákvarðanir eru teknar um framtíðarnotkun lands og auðlinda, s.s. við skipulag íbúðasvæða, samgangna og staðarval stóriðju.

Samtök skipulagsfræðinga
Skipulagsfræðingafélag Íslands er aðili að Samtökum evrópskra skipulagsfæðinga.