1.     Yfirmarkmið
Skipulagsfræðingar skulu með starfi sínu og öðrum samskiptum stuðla að virðingu og viðurkenningu á skipulagsfræðinni og starfi skipulagsfræðinga.

2.  Faglegur metnaður
2.1 Skipulagsfræðingar skulu stefna að því að auka faglega þekkingu sína og bæta starfsþekkingu með símenntun og árvekni á nýungum á sviði skipulags, byggðaþróunar, umhverfismála og stjórnsýslu, auk aðferðafræði og þátta sem lúta að faglegri vinnuaðferðum.
3. Ábyrgð
3.1 Skipulagsfræðingar skulu setja almannahagsmuni ofar öðrum hagsmunum við gerð og framkvæmd skipulags. Sérstakt tillit skal taka til hagsmuna þeirra sem erfitt eiga með notkun byggðs umhverfis, svo sem fatlaðra.

3.2 Skipulagsfræðingar skulu í mætti sérþekkingar og menntunar sinnar stuðla að jöfnu aðgengi og áhrifum íbúa á skipulag og stuðla að skýrri og nákvæmri miðlun upplýsinga til almennings og hagsmunaaðila.

3.3 Skipulagsfræðingar skulu í vinnu sinni stuðla að vernd náttúrulegs umhverfis og sögulegra og menningarlegra verðmæta í manngerðu umhverfi. Þeir skulu hvetja til faglegra vinnubragða varðandi félagslega- og fjárhagslega þætti skipulags og gæða í hönnun mannvirkja.

3.4 Skipulagsfræðingar skulu starfa í hag verkkaupa eða vinnuveitanda,  að því tilskyldu að  stríði ekki gegn þessum siðareglum.

4. Siðferðilegar skyldur
4.1 Skipulagsfræðingar skulu taka tillit til og virða trúnað til verkkaupa, en forðast ágreining við faglega hagsmuni og taka sjálfstæðar ákvarðanir á faglegum grundvelli.

4.2 Vinna skipuagsfræðinga í hag vinnuveitanda skal samræmast lögum þessa lands og hagsmunum almennings.

4.3 Skipulagsfræðingur skal gæta jafnréttis borgaranna og má ekki nota trúnaðarupplýsingar né aðstöðu sína við gerð og framkvæmd skipulags til eigin hagsmuna eða forréttinda né heldur greiðasemi við sér tengda aðila.

4.4 Skipulagsfræðingur skal ekki taka að sér verkefni sem augljóslega rekast á við hagsmuni annarra verkkaupa eða vinnuveitenda hans eða almannahagsmuni.

5.  Samskipti og skyldur við stéttarbræður/-systur
5.1 Skipulagsfræðingur skal leita eftir eins góðum samskiptum og samvinnu við stéttarbræður/-systur og mögulegt er og sýna þeim drengskap og háttvísi, jafnt í viðtali sem umtali, ráðum sem gerðum. Hann skal einnig ávallt hafa hag stéttarinnar að leiðarljósi.

5.2 Skipulagsfræðingur skal ekki leitast við að koma í stað stéttarbróður/-systur, sem hefur samið um tiiltekið verkefni eða á í samningum um slíkt verkefni.

5.3 Skipulagsfræðingur sem til er leitað af verkkaupa um að taka við verkefni úr hendi stéttarbróður/-systur ber skylda til að gera viðkomandi viðvart.

5.4 Skipulagsfræðingur skal ekki nota verk annars skipulagsfræðings í eigin þágu eða þágu vinnuveitanda án skriflegs samþykkis og þá að þess sé  ávallt getið.

6. Samskipti við aðra fagaðila
6.1 Skipulagsfræðingar skulu virða sérþekkingu annarra fagstétta og leitast við að eiga góða samvinnu við, og nýta sér sérþekkingu þeirra þegar við á og í samræmi við eðli verkefnis.

7.
7.1 Skipulagsfræðingur skal ekki taka að sér starf ef hann á persónulegra eða fjárhagslegra hagsmuna að gæta, án þess að gera vinnuveitanda ljós umrædd tengsl (ef um opinberan starfsmann er að ræða fer að stjórnsýslulögum).

8. Auglýsing og kynning
8.1 Skipulagsfræðingar skulu gæta þess að veita réttar upplýsingar og gæta heiðarleika í auglýsingum og ekki skaða með því vísvitandi aðra stéttarbræður eða fagaðila.

Skipulagsfræðingafélag Íslands 99-09-17