Svæðisskipulag Snæfellsness 2014 – 2026,  Andi Snæfellsness – auðlind til sóknar, hlaut Skipulagsverðlaunin 2014 sem afhend voru þann 26. nóvember 2014 af Skipulagsfræðingafélagi Íslands í Ráðhúsi Reykjavíkur.

Skipulagsverðlaunin 2014

Verðlaunahafar ásamt Hjálmari Sveinssyni og Margréti Erlu Gunnarsdóttur við afhendingu verðlaunanna.

Svæðisskipulag Snæfellsness 2014 – 2026 var unnið af ráðgjafarfyrirtækinu Alta ehf og standa sveitarfélögin fimm á Snæfellsnesi að svæðisskipulaginu, en þau eru Snæfellsbær, Stykkishólmur, Grundarfjarðarbær, Eyja- og Miklaholtshreppur og Helgafellssveit.

Mótun svæðisskipulagsins hefur verið í nánu samstarfi við samtök í atvinnulífinu og íbúa á Snæfellsnesi sem standa með sveitarfélögunum að verkefni um stofnun svæðisgarðs á Snæfellsnesi. Að mati dómnefndar var svæðisskipulagið afar vel unnið, mun nýtast vel til aðalskipulagsgerðar fyrir sveitarfélögin á svæðinu og er góð fyrirmynd fyrir önnur sveitarfélög. Vel er að staðið að greiningum á svæðinu sem og aðgerðaráætlun til framtíðar. Byggðaþróun er byggð á náttúru- og menningarauði og er skipulagið til hagsbóta fyrir íbúa, ferðamenn og umhverfið.

Nemendaverðlaunin hlaut Íris Stefánsdóttir fyrir mastersritgerð sína í Skipulagsfræðum við Landbúnaðarháskóla Íslands „Ferðavenjur skólabarna í Reykjavík – Áhrif hins byggða umhverfis á val ferðamáta“. Var dómnefnd sammála um að hér væri á ferðinni áhugavert grasrótarverkefni. Það er samfélagslega mikilvægt að hafa áhrif á lífstíl og það að ganga í skóla er og verði virkur ferðamáti. Vill dómnefnd hvetja sveitafélög til að huga að ferðavenjum barna við skipulagsgerð.

Dómnefndin

Dómnefnd Skipulagsverðlaunanna 2014 var skipuð af:

 • Erla Margrét Gunnarsdóttir, formaður dómnefndar, tilnefnd af
  Skipulagsfræðingafélagi Íslands,
 • Bergljót S. Einarsdóttir tilnefnd af Arkitektafélagi Íslands,
 • Björn Jóhannsson tilnefndur af Ferðamálastofu,
 • Gísli Gíslason tilnefndur af Félagi Íslenskra landslagsarkitekta,
 • Hjálmar Sveinsson tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitafélaga og
 • Þórarinn Hjaltason tilnefndur af Verkfræðingafélagi Íslands.

Áhersla Skipulagsverðlaunanna í ár var á skipulagsgerð í tengslum við ferðaþjónustu og skoðaði dómnefnd sérstaklega eftirfarandi atriði:

 • Samþættingu skipulagsgerðar við hið byggða umhverfi og þá náttúru sem fyrir er
 • Hvaða hlutverk hin ört vaxandi ferðaþjónusta á Íslandi fær í skipulaginu
 • Hvað er það í skipulaginu sem styrkt getur staðaranda og samfélagið
 • Hvernig er skipulagið til hagsbóta fyrir íbúa, ferðamenn og umhverfið

Tillögur til Skipulagsverðlaunanna 2014:

 • Aðalskipulag Hafnarfjarðarbæjar, Skipulags- og byggingarsvið Hafnarfjarðarbæjar.
 • Deiliskipulag Hólmanes – útivistarsvæði, Eigna-, skipulags- og umhverfisnefnd Fjarðabyggðar.
 • Deiliskipulag Helgustaðarnámu – útivistarsvæði, Eigna-, skipulags- og umhverfisnefnd Fjarðabyggðar.
 • Brákartorg – Gamli miðbærinn í Borgarnesi, breyting á gildandi deiliskipulagi, Sigursteinn Sigurðsson.
 • Deiliskipulag Glaðheima í Kópavogi, austurhluti reitur 2, Umhverfissvið, skipulags- og byggingardeild
  Kópavogs.
 • Svæðisskipulag Suðurnesja 2008-2024, Svæðisskipulagsnefnd Suðurnesja.
 • Aðalskipulag Djúpavogshrepps 2008 -2020, Sveitarstjórn Djúpavogshrepps, unnið af teiknistofu
  Guðrúnar Jónsdóttur.
 • Mat á deiliskipulagstillögu vegna jarðarinnar Ytri-Skóga, verkefni unnið af Gimlé Rannsóknarsetri í
  skipulagsfræði við LbhÍ.
 • Grófin og Bergið, Reykjanesbær 2014, Jón Stefán Einarsson.
 • Deiliskipulag á friðlandi við Gullfoss, Umhverfisstofnun Suðurlandsbraut 24 og Marey arkitektar.
 • Mannvirkjahönnun á friðlandi við Gullfoss, Umhverfisstofnun Suðurlandsbraut 24 og Marey arkitektar.
 • Svæðisskipulag: Andi Snæfellsness – auðlind til sóknar, Alta ehf, Snæfellsbær, Stykkishólmur, Grundarfjarðarbær, Eyja- og Miklaholtshreppur og Helgafellssveit.
 • Bók: Hörgull í allsnægtum – Hið byggða umhverfi og hrunið á Íslandi, (en. Scarcity in Excess) ritstýrt af Örnu Mathiesen.

Tillögur til nemendaverðlauna 2014:

 • Korpugarðar, skólaverkefni úr meistaranámi í skipulagsfræði við Landbúnaðarháskóla Íslands, Sigurborg Ósk Haraldsdóttir og Magnús Halldórsson.
 • Hin undirliggjandi verðmæti: þróun lóðaverðs í Reykjavík 2000-2013, mastersritgerð í skipulagsfræði við Landbúnaðarháskóla Íslands, Gunnar Ágústsson.
 • Ferðavenjur skólabarna í Reykjavík: áhrif hins byggða umhverfis á val ferðamáta, mastersritgerð í skipulagsfræði við Landbúnaðarháskóla Íslands, Íris Stefánsdóttir.

Umsögn dómnefndar í heild sinni:

Andi Snæfellsness – auðlind til sóknar, Svæðiskipulag Snæfellsness 2014 – 2026 er vandað, vel unnið og framsetning mjög góð.

Það speglast vel í skipulaginu að það hefur verið mótað í nánu samstarfi við samtök í atvinnulífinu og íbúa á Snæfellsnesi. Markmið þess er að móta og festa í sessi sameiginlega stefnu og framtíðarsýn sveitarfélaganna um umhverfi, atvinnulíf og þekkingu á svæðinu. Að mati dómnefndar er svæðisskipulagið afar vel unnið, mun nýtast vel til aðalskipulagsgerðar fyrir sveitarfélögin á svæðinu og er góð fyrirmynd fyrir önnur sveitarfélög.

Vel er að staðið að greiningum á svæðinu sem og aðgerðaráætlun til framtíðar. Svæðisskipulagið fellur vel að áherslu verðlaunaveitingarinnar í ár sem er á skipulagsgerð í tengslum við ferðaþjónustu og samþættingu hennar við náttúru og byggt umhverfi. Skipulagsverkefnið felur jafnframt í sér nýbreytni við skipulagsgerð hvað varðar samvinnu sveitarfélaga á svæðisvísu við fulltrúa úr atvinnulífinu og íbúa, en þessir aðilar unnu sem einn hópur að svæðisskipulaginu. Ennfremur er svæðisskipulagsgerðin hluti af undirbúningi og þróun Svæðisgarðsins Snæfellsness, sem er frumkvöðlastarf á Íslandi hvað varðar samvinnu um atvinnu- og byggðaþróun á svæðisvísu.

Svæðisskipulag Snæfellsness er langtíma stefnumarkandi skipulagsáætlun um eflingu samfélagsins á Snæfellsnesi á grunni staðaranda og auðlinda svæðisins. Sett er fram stefna um þróun atvinnulífs, þ.m.t. ferðaþjónustu, sem miðar að því að nýta staðarandann við skipulagsgerð, eins og hann birtist í náttúru, sögu, menningu og byggðu umhverfi, um leið og þess er gætt að vernda hann og styrkja. Með þeim hætti er stefnt að því að frekari skipulagsgerð, mótun umhverfis og byggðar, þróun atvinnulífs, uppbygging þekkingar og miðlun og markaðssetning á svæðinu, byggi á og nýti anda svæðisins. Lokatakmarkið er að efla samfélög svæðisins; búa vel að íbúum, laða að ný fyrirtæki og ferðamenn.

Skipulagstillagan er unnin á grundvelli ítarlegrar greiningar á landslagi, sögu og staðarandaSnæfellsness. Dregin er upp skýr mynd, í kortum, myndum og texta, af verðmætum og tækifærumsem í andanum felast. Á grunni þess er sett fram stefna sem er ætlað að stuðla að því að frekari skipulagsgerð, hönnun mannvirkja og landslagsmótun styrki sérkennin og stuðli að góðum gæðum umhverfis og mannvirkja. Einnig er stefnunni ætlað að ýta undir að við þróun vöru og þjónustu í ferðamálum og öðrum atvinnugreinum sé andi svæðisins nýttur til frekari verðmætasköpunar.

Sett eru fram fjölmörg markmið og leiðir að þeim sem er ætlað að stuðla að því að ferðalangar á Snæfellsnesi finni fyrir sterkum anda svæðisins, njóti góðrar þjónustu, spennandi upplifunar og áhugaverðar afþreyingar á fjölbreyttum ferðaleiðum og áfangastöðum sem dreifast um allt svæðið.

Í verkefninu var lögð áhersla á að miðla upplýsingum um skipulagsferlið, gang og afrakstur vinnunnar, m.a. til að koma á framfæri framkomnum hugmyndum og hvetja fólk til að senda inn upplýsingar og hugmyndir. Skipulagsverkefnið felur því í sér nýbreytni á sviði stjórnsýslu hvað varðar skipulagsgerð í samvinnu við samtök, fulltrúa úr atvinnulífinu og íbúa. Aðilar hafa myndað með sér langtíma samningssamband, m.a. til að framfylgja stefnu svæðisskipulagsins sem jafnframt er sóknaráætlun heimamanna. Markmiðið er að efla samfélagið, vinna sameiginlega að því að bæta lífsgæði og lífskjör og auka upplifun og vellíðan íbúa og gesta. Erlendar fyrirmyndir sýna að þessi leið til að stilla saman strengi íbúa, fyrirtækja og stjórnvalda á samstæðu svæði er líkleg til að gefa frjóan jarðveg fyrir þá sem vilja nýta sér landkosti og sérstöðu svæðisins á fjölbreytilegan hátt.

Lagður hefur verið mikill metnaður í svæðisskipulagsverkefnið og náðst hefur mikilvæg samstaða milli sveitarfélaganna fimm og fulltrúa úr atvinnulífinu – ekki síst úr ferðaþjónustunni – um sameiginlega sýn og stefnu um byggðarþróun og skipulagsmál til langrar framtíðar. Samvinna sveitarfélaganna og atvinnulífsins á Snæfellsnesi á vettvangi Svæðisgarðsins Snæfellsness, eykur líkur á að unnið verði markvisst eftir stefnunni við frekari skipulagsgerð og samræmi verði tryggt á milli sveitarfélaga. Þess er því vænst að sá árangur náist sem svæðisskipulagið miðar að.

Að framsögðu telur dómnefnd Skipulagsverðlaunanna 2014 að Svæðisskipulag Snæfellsness sé heildstæð lausn og uppfylli vel áherslu skipulagsverðlaunanna í ár á skipulagsgerð í tenglsum við ferðaþjónustu. Byggðaþróun er byggð á náttúru- og menningarauði og leysir skipulagið vel úr hendi þá þætti er dómnefnd lagði áherslu á við val verðlaunatillögu. Skipulagsgerðin er samþætt við hið byggða umhverfi og náttúru sem fyrir er, hlutverk ört vaxandi ferðaþjónustu voru gerð góð skil í skipulaginu og byggir það vel á þeim staðaranda og samfélagi sem fyrir er ásamt því að vera til hagsbóta fyrir íbúa, ferðamenn og umhverfið.

Dómnefndin hefur því ákveðið að veita tillögunni skipulagsverðlaun Skipulagsfræðingafélagsins árið 2014.

Nánari upplýsingar um Svæðisskipulag Snæfellsness má finna í heild sinni á heimasíðu Svæðisgarðs Snæfellsness:
http://svaedisgardur.is/frettir/103-svaedhisskipulag-snaefellsness-2014-2026

Skipulagsverdlaunin2014_Snaefellsnes_svsk.tillaga-1

Nemendaverðlaun 2014

Ferðavenjur skólabarna í Reykjavík – Áhrif hins byggða umhverfis á val ferðamáta.
Mastersritgerð Írisar Stefánsdóttur í Skipulagsfræðum við Landbúnaðarháskóla Íslands.

Var dómnefnd sammála um að hér væri á ferðinni áhugavert grasrótarverkefni. Það er samfélagslega mikilvægt að hafa áhrif á lífsstíl og það að ganga í skóla er og verði virkur ferðamáti. Verkefnið var vel unnið og mikilvægt skref í átt að sjálfbærri þróun og sjálfbæru skipulagi sveitarfélags.

Vill dómnefnd hvetja sveitarfélög til að huga að ferðavenjum barna við skipulagsgerð og benda á mikilvægi þess að fara fótgangandi í skóla sé virkur ferðamáti.

Hægt er að nálgast ritgerðina hér: http://skemman.is/item/view/1946/18618;jsessionid=2AA5E15BE058066B10A27DDA293B9BB2