Vogabyggð – svæði 2 hlaut Skipulagsverðlaunin 2016 sem afhend voru þann 14. febrúar 2017 í Hannesarholti. Deiliskipulagið er unnin af Teiknistofunni Tröð, Jaakko van’t Spijker (Hollandi) og Felixx (H0llandi).


Deiliskipulagið er nær yfir iðnaðarsvæði í Vogahverfi, Reykjavík, sem á að umbreytta í íbúðar- og þjónustusvæði.

Gunnar formaður SFFÍ afhenti Sigríði Magnúsdóttur og Hans-Olav Andersen verðlaunin.

UMSÖGN DÓMNEFNDAR:

Deiliskipulagið Vogabyggð er vel unnið og uppfyllir mjög vel skilmála verðlaunanna. Iðnaðarsvæði er umbreytt í íbúðar- og þjónustusvæði á sannfærandi hátt.

Góð lausn sem setur fram spennandi og nútímalega borgarsýn en leysir einnig vel úr töluverðu flækjustigi. Þétt fjölbreytt byggð þar sem gert er ráð fyrir öllum ferðamátum og almenningssvæðum er gert hátt undir höfði. Tengingar yfir Sæbrautina eru ekki sannfærandi í gögnum deiliskipulagsins en Sæbrautin liggur utan deiliskipulagssvæðis.

Gott samspil er á milli núverandi mannvirkja á svæðinu og nýrrar byggðar. Vel er hugað að staðaranda og náttúru auk þess að nærumhverfi Elliðaánna er nálgast á varfærinn en skapandi hátt.

Tillagan vinnur marvisst með leiðarljós aðalskipulags Reykjavíkur sem endurpeglast í skýrri stefnu deiliskipulagsins. Sú stefna skilar sér einnig á sannfærandi hátt í skilmála. Auðvelt er að sjá fyrir sér að endaleg uppbygging Vogabyggðar geti orðið mikilvæg fyrirmynd fyrir önnur sambærileg þróunarsvæði.

Hér má nálgast tillöguna:


Sérstök heiðursverðlaun voru veitt eftir tillögu dómnefndar. Þau hlaut dr. Trausti Valsson fyrir framlag sitt til skipulagsmála á Íslandi í gegnum árin.

Formaður SFFÍ afhendir dr. Trausta Valssyni heiðursverðlaun félagsins.

UMSÖGN DÓMNEFNDAR:

Dómnefnd skipulagsverðlaunanna 2016 hefur ákveðið að veita Trausta Valssyni sérstök heiðursverðlaun fyrir framlag sitt til skipulagsfræða í gegnum árin.

Trausti var með fyrstu Íslendingum til að ljúka námi og dr. prófi í skipulagsfræði auk þess að gegna fyrstur manna stöðu prófessors í fræðunum við íslenskan háskóla. Hann hefur vakið athygli á skipulagsmálum með frumlegum, framsýnum og ögrandi hugmyndum sem hafa ýtt undir frekari umræðu um skipulagsmál á Íslandi.

Fjölmargar blaða- og fræðigreinar liggja eftir Trausta auk þess sem hann hefur skrifað 11 bækur og að auki 3 þeirra í enskri þýðingu hans. Nýjasta bók hans, Mótun Framtíðar, hugmyndir – skipulag – hönnun, sem kom út árið 2015, hefur hlotið lofsamlega dóma margra. Í bókinni fjallar Trausti um ævistarf sitt, en um leið skipulagshugmyndir frá öndverðu. Bókin veitir góða innsýn í hugmyndasögu skipulags og umhverfismótunar, einkum á síðari hluta 20. aldar.

Trausti Valsson lauk fullnaðarprófi í arkitektúr og skipulagi frá Tækniháskólanum í vestur Berlín 1972 og Dr. prófi í skipulagsfræði 1987 frá Berkeleyháskóla. Hann lét af störfum í byrjun síðasta árs eftir að hafa kennt skipulagsfræði við Háskóla Íslands í 27 ár, síðustu 15 árin sem prófessor.

Sjá nánar um Trausta á heima síðu hans hér: https://notendur.hi.is/~tv/


Formaður SFFÍ afhendir Myrru Ösp nemendaverðlaun.

Þá voru veitt verðlaun til nemendaverkefna en þau hlaut MS ritgerðin Mat á gæðum aðalskipulagsáætlana – Notagildi gátlista við aðalskipulagsgerð eftir Myrru Ösp Gísladóttur. Ritgerðin fjallar um notkun gátlista við aðalskipulagsgerð í þeim tilgangi að bæta gæði þeirra.

UMSÖGN DÓMNEFNDAR:

Athyglisvert viðfangsefni sem getur nýst vel við skipulagsgerð.
Vert að vekja athygli á notagildi gátlista til að auka gæði skipulagsáætlana

Samanburður á áætlunum milli sveitarfélaga getur þó orkað tvímælis ef þau eru mjög ólík að stærð eða gerð á ólíkum tíma.

Ritgerðin er gott innlegg í umræðuna um bætt verklag við gerð aðalskipulagsáætlana.
Hér má nálgast ritgerðina á Skemmunni: http://hdl.handle.net/1946/23145


Dómnefnd Skipulagsverðlaunanna 2016 var skipuð af:

 • Erla Bryndís Kristjánsdóttir tilnefnd af FÍLA
 • Guðrún Guðmundstóttir tilnefnd af SFFÍ
 • Gunnar Ágústsson formaður SFFÍ
 • Páll Hjaltason tilnefndur af AÍ
 • Þórarinn Hjaltason tilnefndur af VFÍ

Tilnefningar til Skipulagsverðlaunanna 2016:

 • Deiliskipulag fyrir Garðahverfi í Garðabæ – Höfundur: ALTA.
 • Deiliskipulagslýsing fyrir Kársnes þróunsarsvæði í Kópavogi,
  hönnunartillaga SPOT ON
  – Höfundar: Dagný Bjarnadóttir, Anders Egebjerg Terp og Gunnlaugur Johnson.
 • Deiliskipulag fyrir Ólafsdal í Dalabyggð – Höfundar: Landmótun (Yngvi Þór Loftsson, María Guðbjörg Jóhannsdóttir), Hjörleifur Stefánsson, Birna Lárusdóttir (Fornleifastofun Íslands).
 • Deiliskipulag fyrir Vogabyggð, svæði 2 – Höfundar: Teiknistofunni Tröð, Jaakko van’t Spijker og Felixx.
 • Dr. Trausti Valsson

 

Nemendaverkefni tilnefnd til nemendaverðlauna:

 • Rýnt í skipulagseinkenni þéttbýlisstaða í fjörðum á Íslandi. Ísafjörður, Siglufjörður og Neskaupstaður – Höfundur: María Guðbjörg Jóhannsdóttir.
 • Skipulag, staða og stefnumótun ferðaþjónustu í aðalskipulagi sveitarfélaga á Íslandi – Höfundur: Guðrún Dóra Brynjólfsdóttir.
 • „Garður er granna sættir“ Hönnun og útfærsla girðinga til skjóls og afmörkunar á einkalóðum í Reykjavík frá aldamótum 1900 – Höfundur: Ragnar Björgvinsson.
 • Mat á gæðum aðalskipulagsáætlana. Notagildi gátlista við aðalskipulagsgerð – Höfundur: Myrra Ösp Gísladóttir.
 • Gufunes, útivistarsvæði og sjálfbært smáhúsahverfi – Höfundur: Jón Hámundur Marinósson.
 • Þróun skipulags á Heimaey. Forvarnir og eldfjallavá – Höfundur: Sjöfn Ýr Hjartardóttir.
 • Verðmæti Laugardalsins. Hefur skipulag áhrif á fasteignaverð – Höfundur: Brynjar Þór Jónasson.